Vín vikunnar

Það hafa nokkur mjög athyglisverð vín bæst í safnið hjá okkur á síðustu dögum. Þar ber fyrst að nefna vín frá Chilenska vínhúsinu Cono Sur.

Cono Sur hefur markað sér sess sem eitt af framsæknari vínhúsum Chile. Það varð fyrsta vínhúsið í Chile til að tappa vínum á flöskur með skrúfutappa og það var jafnframt það fyrsta sem hóf framleiðslu á vínum úr þrúgunni Viognier til útflutnings. Sömuleiðis hefur það verið leiðandi í Chile í framleiðslu á Pinot Noir.

Við smökkuðum Cono Sur Viognier og rauðvínin Cono Sur Cabernet Sauvignon og Cono Sur Syrah. Öll vel þess virði að kaupa, góð gæði og fínt verð en þau kosta öll 1.799 krónur.

Vínin frá Cune í Rioja eru sömuleiðis ný á markaðnum, en þetta er eitt elsta og stærsta vínhús héraðsins. Við byrjuðum á því að smakka Cune Reserva 2005. Ekta nautakjötsvín.

Hinn svissneski Donald Hess, sem er orðinn umsvifamikill í vínheiminum og m.a. eigandi Peter Lehmann í Ástralíu og Glen Carlou í Suður-Afríku. Þegar hann hóf vínrækt í Argentínu valdi hann staðinn Salta, lengst uppi í óbyggðum Norður-Argentínu. Hvítvínið Colomé Torrontes er virkilega gott og það sama má segja um rauðvínið Amalaya.

Loks yndislegt og femínint freyðivín frá Bava – ekta Valentínusarvín. Bava Malvasia di Castelnuovo don Bosco.

Myndskreytingin þessa vikuna er frá Maipo í Chile.

Deila.