Vinsældir Noma taka sinn toll

Vinsældir veitingahússins Noma í Kaupmannahöfn eru farnar að taka sinn toll á matreiðslumeistaranum Rene Redzepi. Noma var nýlega valið besta veitingahús í heimi af Restaurant Magazine og löng biðröð er eftir borðum.

Redzepi segir í viðtali við bresak vínritið Decanter að hann óttist að hann sé að missa dampinn og muni hugsanlega snúa sér að öðrum hlutum. Það gæti vel verið að hann myndi byrja frá byrjun með nýjan stað og þá hugsanlega einhvers staðar annars staðar en í Danmörku. Það yrði þó ekki um nýjan Noma-stað að ræða þar sem annars staðar væri ekki hægt að nálgast það hráefni sem matargerðin þar byggist á.

Noma er til húsa í Norðurbryggju í sama húsi og sendiráð Íslands. Matargerðin staðarins byggir á notkun vestnorrænna hráefna.

Deila.