Þúsund vínhús sýna breiddina á Fenavin

Það höfðu margir miklar efasemdir þegar Spánverjar settu á laggirnar sína eigin vínsýningu fyrir tíu árum undir nafninu Fenavin. Hún hefur hins vegar náð rækilega að festa sig í sessi. Sýningin var í vikunni haldinn í fimmta skipti í borginni Ciudad Real á Mið-Spáni og sóttu hana þúsundir framleiðenda, vínkaupenda og blaðamanna.

Rúmlega þúsund spænsk vínhús voru með bása á sýningunni og þar gafst því frábært tækifæri til að kynnast því sem er að gerjast í spænskri víngerð þessa stundina.

Þá var boðið upp á fjölda fyrirlestra en meðal fyrirlesara voru Jay Miller, sem fjallar um spænsk vín í The Wine Advocate, Robert Joseph, stofnandi International Wine Challenge og David Seijas, vínþjónn El Bulli veitingahúss Adrian Ferrans og ræddu þeir þróun mála í vínheiminum.

Seijas sagði vínframleiðendur þurfa að hugsa gang sinn. Margir hefðu farið fram úr sér á síðustu árum með framleiðslu á stöðugt dýrari vínum. Bæði vínframleiðendur og veitingamenn þyrftu að koma aftur niður á jörðina til að endurheimta neytendur nú þegar kreppir að í efnahagsmálum heimsins.

Deila.