Kjúkling er hægt að undirbúa fyrir grillið með margvíslegum hætti. Hér eru tíu frábærar uppskriftir að grilluðum kjúkling á mismunandi vegu.
Byrjum á klassíkinni. Kjúklingur með BBQ-sósu er upprunalega kominn frá suðurríkjum Bandaríkjanna þar sem löng hefð er fyrir því að grilla kjöt sem smurt er með sætri sósu úr tómatsósugrunni. Kansas-kjúklingur er uppskrift af svipuðum meiði en með aðeins annarri nálgun og sterkari sósu.
Þegar kjúklingur er grillaður þarf fyrst að ákveða hvort að hann verði grillaður í heilu lagi eða bútaður niður. Kryddjurtafylltur kjúklingur er dæmi um leið sem hægt er að fara ef kjúklingurinn er grillaður heill, en þá er tilvalið að fylla hann af alls konar góðgæti. Önnur vinsæl leið er svo að að troða kjúklingnum á bjórdollu, hálffulla af bjór. Bjórdollukjúklingur er nefnilega uppskrift sem ávallt vekur ánægju gesta. Sé grillið búið snúningstein eða „rotisserie“ opnast nýjir möguleikar við grillun á kjúkling og Perúski kryddkjúklingurinn er uppskrift sem þá er hægt að grípa til.
Lengi vel var einungis hægt að fá beinlausar og skinnlausar kjúklingabringur hér á landi. Nú er hins vegar aftur hægt að kaupa heilar bringur með öllu. Þær eru heppilegar á grillið og gott að troða t.d. kryddi undir húðina fyrir eldun. Kjúklingabringur fylltar með hvítlaukssmjöri og kryddjurtum eru til dæmis klassískt góðar og einnig eru Grillaðar mozzarella og salvíufylltar kjúklingabringur líklegar til að vekja lukku við borðið.
Kjúklingur í myntu- og kókosmarineríngu er uppskrift sem árum saman hefur verið í uppáhaldi en auk þess sem kókoslögurinn og sósan er hrikalega góð er annað meðlæti algjör snilld.
Loks er hægt að horfa til Asíu. Teriyaki-kjúklingur byggir á japönskum grunni en teriyaki eru sætar sósur á sojagrunni. Satay-kjúklingur kemur hins vegar frá suð-austur Asíu en þessi jarðhnetukjúklingur er gríðarlega vinsæll í götueldhúsinu í t.d. Singapore og Malaysíu.