Saint Clair Pioneer Block Pinot Gris 2007

Nýja-Sjáland er þekktast fyrir Sauvignon Blanc en það er svo sannarlega hægt að rækta margar aðrar þrúgur þar með frábærum árangri. Þetta Pinot Gris er mjög athyglisvert, það er hins vegar ekki Nýjaheimslegt á nokkurn hátt, þetta er vín í svipuðum stíl og virkilega góð Pinot Gris frá Alsace í Frakklandi.

Pioneer Block-vínin koma frá Omaka-dalnum í Marlborough og þetta vín er af ekru sem nefnist 5 Bull Block. Gullið á lit með angan af þurrkuðum ávöxtum, apríkósum og fíkjum. Hefur svolítið botrytis-kennda eða „sætvínslega“ angan, myndi líklega flokkast sem Vendange Tardive í Alsace, það örlar á hunangi og ristuðum hnetum. Þykkt í munni, með nokkurri sætu, langt og þétt. Algjörlega á toppnum núna.

2.999 krónur. Mjög góð kaup.

 

 

 

Deila.