Vín ársins 2011

Það heyrir til á þessum árstíma að horfa yfir farinn veg og því ekki úr vegi að velta fyrir sér hvaða vín standi upp úr af þeim tvö hundruð vínum sem tekin hafa verið til umfjöllunar á því ári sem nú er að líða. Mörg hafa verið mjög góð, sum ágæt og einstaka vín alveg hreint frábært. Sum standa upp úr vegna gæðanna vegna, önnur vegna þess hvað þau eru góð miðað við hvað þau kosta. Á þessum lista yfir „vín ársins“ er farið bil beggja og tíu vín dregin fram sem standa upp úr af mismunandi ástæðum.

Af mörgum góðum hvítvínum eru þrjú sem skara framúr. Þar ber fyrst að nefna G.D. Vajra Langhe Bianco, alveg hreint magnað Riesling-vín frá Piedmont á Norður-Ítalíu. Ekki risavaxið en alveg hreint einstaklega fágað og margslungið. Tvö hvítvín frá Poggio del Corleri í Lígúríu á Ítalíu eru einnig eftirminnilegt skörp og fersk matarvín sem lyfta flestu sjávarfangi upp á hærra plan. Það er erfitt að gera upp á milli þeirra en Cygnus Pigato hefur þó naumlega vinningin. Þriðja stóra hvítvínið er síðan Weingut Alphart Neuburger Hausberg frá Austurríki, sem kom eins og ferskur andvari inn í hinn hefðbundna hafsjó af Chardonnay og Sauvignon Blanc. Austurríki er svo yndislega öðruvísi. Bestu kaupin eru hins vegar óumdeilanlega í hvítvíninu Baron de Ley Blanco, afskaplega heillandi og gott vín á tæpar sautján hundruð krónur.

Í rauðvínunum komu mörg góð vín tll greina. Tvö vín frá Chile komast á listann. Annars vegar hið fíleflda Terrunyo Block 27 svakalegur bolti úr Carmenere og hins vegar Morande Gran Reserva Syrah, virkilega fágað og fínlegt vín. Fulltrúi Ítalíu á listanum kemur merkilegt nokk frá Montepulciano en vínið San Clemente heillaði okkur upp úr skónum. Frakkland á sömuleiðis einn fulltrúa á listanum. Nokkur einstaklega góð komu á markaðinn frá hinum frábæra 2007 árgangi í Rhone þar sem einföld Cotes-du-Rhone fóru að gefa ótrúlega mikið fyrir peninginn. Af þeim vínum stóð þó vínið frá E. Guigal upp úr, frábær kaup. Bestu kaup ársins í rauðvíni komu hins vegar frá Spáni. Þrjú toppvín með skrautlegum miðum og nafni – Beso de Vino – komu í sölu upp úr miðju ári. Vínið Seleccion er ótrúlega gott fyrir peninginn.

Af öllum vínunum er þó eitt sem stendur upp úr. Tres Patas er vín frá litlu vínhúsi sem heitir Bodegas Canopy og er staðsett í Méntrida, rétt fyrir utan borgina Toledo á Mið-Spáni. Spánn er eitthvert mest spennandi víngerðarsvæði heimsins í dag – alls staðar eru gamalgróin héruð að ganga í endurnýjun lífdaga og gerjunin minnir helst á Nýja heiminn þegar hann var að stíga fram. Tres Patas og raunar systurvínið Malpaso sömuleiðis er frábært dæmi um þessa þróun. Þetta er ekki týpískur Spánverji – stíllinn allt að því franskur – en vínið er yndislegt.

Þannig að Spánn situr uppi með þrennu:

Vín ársins: Tres Patas, Méntrida

Bestu rauðvínskaup ársins: Beso de Vino Seleccion, Carinena

Bestu hvítvínskaup ársins: Baron de Ley Blanco, Rioja

Deila.