Nú er EM í hámæli fyrir fótbóltaáhugamennina en vináhugamennirnir dunda sér við ýmislegt annað. Á dögunum var haldin stór og mikil smökkun vestur í Los Angeles þar sem að nokkrum af þekktustu vínum Vesturheims var stillt upp á móti þekktustu vínum Frakklands.
Kveikja að smökkuninni var grein í Wall Street Journal fyrir nokkrum vikum þar sem því var lýst yfir að Apalta í Colchagua-dalnum í Chile væri fyrsta „Grand Cru“ Chile. Hópur bandarískra vínsérfræðinga ákvað að láta reyna á þetta og fengu hóp af þekktustu vínþjónum og vínblaðamönnum Los Angeles undir forystu Anthony Dias Blue til að taka þátt í smökkun sem að mörgu leyti var sett upp með svipuðum hætti og hin fræga Parísarsmökkun á sínum tíma.
Nú var hins vegar ekki stillt upp Chardonnay og Cabernet heldur annars vegar Syrah/Shiraz og hins vegar Bordeaux-þrúgur, þar með taldar Carmenere. Það voru heldur ekki bara Napa og Frakkland sem kepptu heldur þekktustu vin fleiri svæða.
Í fyrri umferðinni var uppstillingin þessi:
- Opus One 2004
- Montes Purple Angel 2007
- Chateau Montelena Cabernet Sauvignon 2004
- Ornellaia 2004
- Château Lafite 2004
- Château Haut Brion 2004
- Sassicaia 2004
- Montes M Cabernet Sauvignon 2004
Niðurstaðan úr þessum riðli var sú að Chateau Lafite lenti í fyrsta sæti en Montes M í öðru sæti, einungis hálfu stigi á eftir en vínunum voru gefin stig samkvæmt 100 punkta kerfi.
Í síðari riðlinum var uppstillingin þessi.
- Chapoutier Hermitage 2004
- Bonaccorsi Syrah 2004 (Paso Robles)
- Montes Folly Syrah 2004
- Penfolds Grange Hermitage 2004
Niðurstaðan var sú að Grange og Folly fengu nákvæmlega jafnmarga punkta frá smökkurunum.