Vina Maipo Syrah-Viognier Gran Devocion 2009

Vina Maipo tengja eflaust flestir við ódýr vín enda er grunnlína vínhússins einhver ódýrustu vínin í vínbúðunum. Víngerðarmaðurinn Max Weinlaub og félagar hans hjá Vina Maipo framleiða þó ekki síður vönduð og dýrari vín og má þar nefna hina forvitnilegu línu sem ber nafnið Gran Devocion.

Öll Gran Devocion  rauðvínin eiga það sameiginlegt að nota þrúguna Syrah sem grunn en henni er síðan blandað við ólíkar þrúgur. Weinlaub er sannfærður um að Syrah sé sú þrúga sem eigi hvað mesta framtíðarmöguleika í Chile og hann hyggst vera þar fremstur í flokki. Þetta er vín þar sem Syrah er blandað saman við hvítu þrúguna Viognier en það er hin klassíska blanda Cote Rotie-vínanna í norðurhluta Rhone.

Vínið hefur þéttan dökkan lit, þung angan af sultuðum plómum, kaffi, heslihnetum og svörtum ólífum. Feitt og þétt í munni en engu að síður með nægilega sýru til að gefa víninu ferskleika og bit. Gott matarvín.

Ekki spillir fyrir að vínið lækkaði 1. júlí  úr 3.079 krónum í 2.699 krónur! Mjög góð kaup.

 

Deila.