Chateau St. Michelle Riesling

Riesling er kannski ekki sú þrúga sem að maður tengir fyrst við bandarísk hvítvín. Engu að síður hefur náðst mjög áhugaverður árangur í ræktun hennar á nokkrum stöðum þar vestra og þá ekki síst í Washington-ríki. Chateau St. Michelle hefur verið þar framarlega í flokki og er bæði stærsti Riesling-framleiðandi Bandaríkjanna en einnig einhver sá besti. Þeir hjá St. Michelle framleiða t.d. vín sem heitir Eroica í samvinnu við einn besta Riesling-framleiðanda Þýskalands, Ernst Loosen.

Þetta er ljúft hvítvín með þó nokkurri sætu, sem verður þó aldrei fráhrindandi. Sætur sítrus, sítrónubörku í bland við ferskjur og steinefni, smá steinolía og austurlensk krydd. Þykkt og sætt en jafnframt með ágæta ferska sýru. Reynið þetta með sterkkrydduðum austurlenskum réttum.

2.398 krónur.

Deila.