Verdeo 2011

Spánverjar hafa verið að sækja mikið í sig veðrið á síðustu árum þegar kemur að framleiðslu hvítvína. Það er líka að verða æ fleirum ljóst að margar af spænsku hvítvínsþrúgunum, sem ekki hafa farið hátt til þessa, eru alveg hreint magnaðar. Ein sú besta heitir Verdejo og helsta ræktunarsvæði hennar er Rúeda í norðvesturhluta Spánar. Rúeda er hérað með langa sögu og hefð en það er fyrst á síðustu tveimur áratugum eða svo sem að það hefur vaknað almennilega til lífsins, gæði hafa verið tekin föstum tökum og vínin í kjölfarið vakið athygli um alla heim. Nú er svo komið að Rúeda-vínin eru að verða leiðandi þegar kemur að spænskum hvítvínum. Það er ekki síst Verdejo að þakka. Hún er ekki lengur þekkt fyrir þurr og styrkt vín í sérrístíl, líkt og framleidd voru í Rúeda um aldaraðir heldur fersk og heillandi hvítvín.

Verdeo er Rúeda-vín úr smiðju Miguel Torres sem endurspegla vel eiginleika þrúgunnar og gæði. Mjög ljóst á lit með ferskri grösugri og sítrusmikilli angan, greip og sítróna,  í bland við græn epli og perur. Brakandi ferskt með hressilegri, þægilegri sýru, svolítið míneralískt. Virkilega gott vín. Með sjávarréttum eða eitt og sér, t.d. sem fordrykkur.

1.990 krónur. Mjög góð kaup.

Deila.