Nautalund með klettasalatsrisotto

Nautalund þarf gott meðlæti og hér förum við til Ítalíu og setjum saman bragðmikið risotto með klettasalati og sólþurrkuðum tómötum sem passar einstaklega vel við kjötið.

Klettasalatsrisotto

  • 3 dl Arborio-hrísgrjón
  • 8-10 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir
  • 1 poki klettasalat, saxið gróft
  • 1 laukur, fínsaxaður
  • 3-4 hvítlauksgeirar, fínsaxaðir
  • 2-3 beikonsneiðar eða pancetta, skorið smátt
  • 75 g parmesan, rifinn
  • 1 dl hvítvín
  • 1 lítri kjúklingasoð, heitt
  • smjör

Hitið smjör á pönnu. Mýkið fínsaxaðan laukinn og beikon/pancetta á miðlungshita í nokkrar mínútur. Bætið þá hvítlauk og sólþurrkuðum tómötum saman við og steikið áfram í 2-3 mínútur. Þá fara grjónin á pönnuna og þeim er velt um þar til að þau hafa hitnað vel, kannski 2-3 mínútur í viðbót. Bætið grófsöxuðu klettasalatinu út á pönnuna en geymið 1-2 lúkur.  Hellið hvítvíninu út á og  sjóðið nær alveg niður. Byrjið þá að ausa heitu soðinu á pönnuna þannig að það þekji grjónin á pönnunni. Hrærið reglulega í og bætið við soði eins og þarf. Eftir 18-20 mínútur ættu grjónin að vera tilbúin. Það á líka að vera smá vökvi eftir. Hrærið rifna Parmesan-ostinum saman við, Bragðið til með salti og pipar. Blandaið afganginum af klettasalatinu saman við. Látið standa í nokkrar mínútur áður en borið er fram.

Nautalundin

Takið lundina úr ísskáp að minnsta kosti klukkustund áður en hún er elduð þannig að hún sé við stofuhita. Nuddið lundinni upp úr smá ólífuolíu, sjávarsalti, pipar, rósmarín og timjan. Grillið eða steikið í um 3 mínútur á hvorri hlið. Setjið inn í 125 gráðu heitan ofn í um 10 mínútur. Þá ætti hún að vera rare, medium-rare. Leyfið að standa í um 10 mínútur áður en hún er sneidd niður.

Sneiðið niður lundina og setjið á disk. Sáldrið smá Maldon-salti yfir og piprið. Hellið smádreytli af hágæða ólífuolíu yfir. Setjið risotto á diskinn og berið fram.

Með þessu að sjálfsögðu gott ítalskt rauðvín, t.d. hið afbragðsgóða Cum Laude frá Banfi.

Fleiri uppskriftir að risotto má svo finna hér.

Deila.