Kínverjarnir koma!

Stóraukinn áhugi Kínverja á góðum vínum er ein af helstu ástæðum þess að  verð bestu vína heims, ekki síst þeirra frá Bordeaux í Frakklandi, eru komin í hæstu hæðir. Það er eiginlega ekki lengur nema á valdi kínverskra auðjöfra að fjárfesta í sumum þeirra lengur. Það hefur hins vegar ekki farið eins hátt að Kínverjar eru einnig orðnir ansi fyrirferðarmiklir í vínframleiðslu. Hversu margir átta sig á að Kína er í dag áttunda helsta vínframleiðslusvæði veraldar?

Kínversk vín hafa löngum verið litin hornauga meðal vínáhugamanna og fáir tekið þau alvarlega. Helst hafa þau sést á vínlistum ódýrra kínverskra veitingahús sem hafa viljað hafa eitthvað kínverskt á seðlinum. Á undanförnum árum hefur hins vegar verið fjárfest gífurlega í víngerð í Kína og jafnvel verið reist tignarleg „chateau“ sem myndu sóma sér vel á Médoc-skaganum í Bordeaux.

Á fimmta hundrað vínhúsa eru nú starfrækt í Kína og vínviður ræktaður á um 50 þúsund hektörum. Tölfræðin er hins vegar ekki alveg nákvæm. Megnið af framleiðslunni eru ódýr og óspennandi vín en smám saman er „alvöru“ vínum að fjölga. Sjálfur sannfærðist ég um að kínversk vín þyrfti að taka alvarlega í kvöldverðarboði með borgarstjóra Shanghai fyrir nokkrum árum en vínið sem þar var borið fram var sannkallað þungaviktarvín.

Fjölmargir þekktir víngerðarmenn frá Evrópu, Ástralíu og Nýja-Sjálandi starfa nú með kínverskum vínhúsum og þekkt vínfyrirtæki á borð við Lafite, Torres og Pernod-Ricard hafa ákveðið að taka sér fótfestu í kínverska víniðnaðinum. Auk þess hafa kínverskir víngerðarmenn starfað hjá þekktum vínhúsum og flutt reynslu sína með sér heim.

Það vakti athygli nýlega þegar að einn virtasti vínsali Bretlands, Berry Brothers & Rudd ákvað að taka inn kínversk vín í sölu og sumir spá því jafnvel að innan nokkurra ára muni það þykja jafnsjálfsagt að bera fram kínversk vín og t.d. vín frá Suður-Afríku eða Nýja-Sjálandi.

Kína er stórt og mikið land og þar eru víða ágætis aðstæður til vínræktar.  Aðrir hafa hins vegar efasemdir og benda á að þrátt fyrir allt séu aðstæður erfiðar. Í norðurhlutanum þurfi til dæmis að moka jarðvegi yfir vínviðinn á hverju hausti til að hann drepist ekki í frosthörkum vetrarins. Það er hins vegar aldrei að vita hvað tíminn mun leiða í ljós.

Sem stendur er ekkert kínverskt vín í boði í vínbúðunum en í fríhöfninni eru fáanleg tvö vín,  hvítt Chardonnay og rautt Cabernet Sauvignon frá Helan Mountain Winery. Það vínhús er í eigu franska fyrirtækisins Pernod-Ricard.

Deila.