CapFruit hampar íslenskri matargerð

Franska fyrirtækið CapFruit sem er leiðandi í framleiðslu á margskonar ávaxtavörum sem eru mikið notaðar af matreiðslumeisturum í t.d. eftirrétti og bökurum hefur undanfarin fjórtán ár gefið út sérstakar uppskriftabækur tileinkaðar matargerð tiltekins lands eða héraðs.

Nú að þessu sinni varð Ísland fyrir valinu og var útkoma íslenska ritsins kynnt við hátíðlega athöfn í Kolabrautinni í Hörpu. Það var Þráinn Freyr Vigfússon, yfirmatreiðslumeistari Kolabrautarinnar og fyrirliði kokkalandsliðsins, sem leiddi teymi sextán íslenskra matreiðslumanna og bakara frá helstu veitingastöðum og bakaríum landsins er setti saman uppskriftina í bókina.

Hún verður gefin út í tíu þúsund eintökum og dreift til fagaðila í um fimmtíu ríkjum og á tólf tungumálum. Þegar hefur verið fjallað um borgir eins og París, Hong Kong, Singapore, San Francisco og Stokkhólm auk fjölmargra annara. Útgáfan er því mikil viðurkenning fyrir íslenskan veitingamarkað.  Garri ehf og Capfruit hafa haft samstarf í að velja og undirbúa útgáfu blaðsins hér á landi.

Í athöfninni á Kolabrautinni var staddur Johannes Bonin frá Burj Al Arab-hótelinu í Dubai en það er einmitt Dubai sem næsta uppskriftabók CapFruit verður helguð og tók Bonin við keflinu af Þráni Frey.

Deila.