Haukur bloggar: Anchorage Brewing og Firestone Walker

Bjórhátíðin Copenhagen Beer Celebration var haldin í Kaupmannahöfn á dögunum og var Haukur Leifsson á staðnum. Hér segir hann frá tveimur spennandi brugghúsum sem voru á sýningunni.

Anchorage Brewing vakti strax athygli. Það er lítið brugghús í Alaska sem hefur verið mikið í umræðunni í bjórheiminum vegna frábærra bjóra sem bruggmeistarinn leyfir að þroskast í eikartunnum. Love Buzz Saison er talinn meðal þeirra allra bestu „saison“ bjóra í heiminum en „saison“ er belgiskur bjórstíll og er ölið oftast gerjað með brettanomyces ölgerlinum. Þessi gerill gefur af sér sérstakan keim sem minnir einna helst á útihús. Love Buzz var fyrsti bjórinn sem Gabe Fletcher, sjá mynd hér að ofan, eigandi og bruggmeistari Anchorage, bruggaði í sinu eigin brugghúsi en hann var lengi bruggmeistari Midnight Sun brugghússins. Þessi bjór stóð fyllilega undir væntingum, skemmtilega súr en í senn ávaxtamikill og örlítið pipraður. Eiginleikar eikartunnunnar, sem áður hýsti franskt Pinot Noir rauðvín, setti sitt mark á bjórinn. Gabe Fletcher og fjölskylda hans matreiddi dásemdar bjóra ofan í gesti á þessari hátið sem ýmist voru gerjaðir með brettanomyces eða víngeri.

Matt Brynildsson

Matt Brynildsson

Vegna staðsetningar minnar á setusvæðinu á hátíðinni þá lá næst beinast við að taka hús á Firestone Walker brugghúsinu frá Kaliforniu. Þetta brugghús er afar hátt metið í bjórheiminum og er frægt fyrir India Pale Ale bjórana sína. Stærri bjórarnir hafa einnig fengið griðarlegt lof. Matt Brynildson aðalbruggari þeirra var á staðnum og skenkti í glös. Hann var afar liðlegur og það var áberandi mikil umferð til hans enda frábært brugghús og frægur maður í bjórheiminum að hella í glösin. Matt er efnafræðingur að mennt og hefur lagt mikla vinnu í rannsókn á humlum. Áður en hann gekk til liðs við Firestone Walker var hann aðalbruggari Goose Island í Chicago og gerði það að einu besta brugghúsi í heimi. Árið 2001 lá leið hans til Kaliforniu í hið litla brugghús Firestone Walker. Brugghúsið dafnaði eftir komu hans og hefur fjórfaldað magn sitt í framleiðslu.

Imperial Stout þeirra FireStone Walker manna, Parabola, stóð upp úr en hver einasti bjór sem Matt bauð upp á þessa helgi var hreinlega frábær.

Deila.