Haukur bloggar: Sumarbjórinn Röðull, IPA frá Ölvisholti

Sumarið er gengið í garð og eins og oft áður koma brugghús landsins með sumarbjóra.

Það er afar ánægjulegt að Ölvisholt setur nýjan sumarbjór á markað í ár, en Ölvisholt, sem er eitt besta brugghús okkar Íslendinga, hefur verið afar þögult síðustu ár þegar komið hefur að nýjum tegundum.

Ölvisholt fékk nýjan bruggara til liðs við sig nýlega, Árna Theodór Long, en hann hefur verið hátt metinn í heimabruggs heiminum hér á landi undanfarin ár, og almannarómur í þeim bransa segir að þar er maður sem kann sitt fag. Það er því skemmtilegt að bandaríski bjórstíllinn India Pale Ale verður fyrsti nýji bjórinn sem Ölvisholt sendir frá sér undir stjórn nýs bruggmeistara en eins og bjórunnendur vita að þá á maður alltaf von á góðum bjór þegar kemur að Ölvisholti, sbr. vinsældir Lava vestanhafs.

Ölvisholt Röðull er India Pale Ale að bandarískri fyrirmynd. Hann er kröftuglega bitur, í bjórnum eru 4 tegundir af humlum og er Summit humallinn í aðalhlutverki. Humlarnir gefa bjórnum biturleika og skemmtilegan ávaxtakeim. Bjórinn er einnig þurrhumlaður sem gefur bjórnum langt og bitur eftirbragð.

Hér eru humlarnir að njóta sín. Skemmtilegur ávaxtakeimur, sem samanstendur aðallega af appelsínuberki, mandarínum og greip, einkennir nefið. Í munni virkar hann svalandi og lýkur sér síðan með frábæra og langa beiskju. Hægt er að finna keim af framandi ávöxtum sem njóta sín vel með beiskjumagninu.

Aðspurður sagði Árni að ekki hafi komið til greina að brugga annað en IPA þegar tækifæri gafst á sumarbjór. Bjórunnendur hafa beðið eftir nýjum bjór frá Ölvisholti og þá sér í lagi IPA og fannst bruggmeistaranum sanngjarnt að fylgja þeirri eftirspurn eftir, enda er hann mikill aðdáandi bandarískra IPA bjóra, sem er einni besti bjórstíll sem fólk getur notið ef vel viðrar.

Það er því ljóst að unnendur góðra bjóra og svokallaðir „humlahausar“ geta aldeilis notið sín í sumar þar sem frábær IPA bætist í góða flóru íslenskra bjóra. Þetta er IPA sem gæti vel keppt við bestu IPA bjóra vestanahafs og frábært að fá meira úrval af vel humluðu öli frá íslensku örbrugghúsunum.

Deila.