Villa Antinori Toscana IGT 2009

Villa Antinori er vín með langa og merkilega sögu. Það var fyrst framleitt árið 1928 og áratugum saman var þetta helsta Chianti Classico vín Antinori-fjölskyldunnar. Á árinu 2001 varð hins vegar sú breyting á að skilgreining vínsins breyttist úr Chianti yfir í Toscana IGT þegar Antinori ákvað að auka hlutfall „alþjóðlegra“ þrúgna í blöndunni umfram það sem reglur Chianti leyfa. Blandan er núna yfirleitt í kringum 55-60% Sangiovese, 20-25% Cabernet Sauvignon, 15% Merlot og 5% Syrah.

Þetta er vín sem hefur mikla og góða fyllingu, Toskana út í gegn en frönsku þrúgurnar gefa víninu aðra vídd, það er ekki eins skarpt og Chianti-vínin, þykkara og mýkra. Djúpur, dökkur ávöxtur, plómur, þroskaðar, alveg út í sveskjugraut, smá tóbak og súkkulaði, mild krydd og eik. Mjúk áferð, þykkt, nokkuð langt í munni og þægilegt. Afbragðs vín með ítölskum mat.

2.999 krónur. Góð kaup.

Deila.