Domaine Drouhin Pinot Noir 2010

Það er mikið ánægjuefni að sjá nú í vínbúðunum vín frá Domaine Drouhin í Willamette-dalnum í Oregon í Bandaríkjunum. Þetta vínhús er í eigu eins þekktasta framleiðdanda Búrgundarhéraðsins, Joseph Drouhin, og rétt eins og á heimslóðunum í Frakklandi er öll áherslan á Pinot Noir og Chardonnay. Og rétt eins og þar er útkoman yfirleitt fantagóð, en nýlega fjölluðum við um hvítvínið Arthur Chardonnay.

Hér er það hins vegar rauðvín úr Pinot Noir. Nýjaheimsvín með Búrgundarfágun. Nokkuð dökkt af Pinot að vera, Dökk, rauð ber í nefi, kirsuber og rifs. Töluvert kryddað, þarna er negull en líka kryddjurtir. Þykkt, kraftmikið en ferskt með kröftugum, mjúkum tannínum og góðri sýru sem gefur víninu ferskleika. Gefið því góðan tíma til að opna sig. Með lambi eða þá önd með berja- eða appelsínusósu.

6.298 krónur.

Deila.