Guðrún Jenný bloggar: Focaccia Calabrese

Hér er uppskrift af foccaccia brauði sem ég bar fram með pastarétti um daginn.  Brauðið er mjög fljótlegt og afar gott.  Með góðu salati væri jafnvel hægt að hafa þetta sem létta máltíð.

Deigið:

 • 2 tsk þurrger
 • 1 ½ msk sykur
 • 3 ½ bolli brauðhveiti
 • 1 tsk salt
 • ¼ bolli ólífuolía
 • 1 – 1 ½ bolli volgt vatn

Blandið saman í hrærivélaskálina geri, sykri, hveiti, salti og ólífuolíu.  Velgið vatnið og hellið því saman við blönduna á meðan deigkrókurinn á hrærivélinni hrærir þetta vel saman.  Athugið að það getur verið að þið þurfið ekki á öllu vatninu að halda.

Þegar deigið er komið vel saman setjið það í olíuborna skál og leyfið því að hefast í um það bil klukkutíma.

Á meðan búið þið til kryddolíu til að pensla deigið.

Olían:

 • ¼ bolli ólífuolía
 • 1 msk þurrkað oregano
 • 1 msk þurrkað basil
 • ½ tsk chili flögur
 • 1 pressað hvítlauksrif
 • gróft salt

Öllu blandað saman og látið bíða á meðan deigið hefast

Þegar deigið hefur hefast þá er því skipt í tvo hluta og teygt aðeins á því þannig að það sé passi ca í eina ofnskúffu.  Látið nú deigið aftur hefast í um það bil 20 til 30 mínútur og hitið ofninn í rúmlega 200°C.  Að seinni hefun lokinni potið þið í deigið þannig að litlar holur myndist í deiginu.  Penslið nú deigið með kryddolíunni og bakið það í ofninum í ca 18 – 20 mínútur.  Á meðan brauðið bakast skerið þið niður hráefnið sem á að fara ofan á:

 • tómatar
 • mozzarellaostur (ferskur)
 • ferskt basil
 • gróft salt

Magnið fer svolítið eftir stærð brauðanna.  Ég notaði eina ferska mozzarella kúlu, 2 kokteiltómata og einn venjulegan og nokkur basillauf.

Focaccia Calabrese

 

Þegar brauðið hefur bakast í ca 18 mínútur þá er það tekið út úr ofninum.  Ostakúlan er rifin í bita og bitunum dreift yfir bæði brauðin.  Þá er tómatsneiðunum raðað yfir og loks er basilstrimlunum dreift yfir.  Stráið grófu salti að lokum yfir brauðið og penslið aðeins með kryddolíunni.  Nú er brauðunum stungið aftur inn í ofninn í 5 til 8 mínútur eða þar til osturinn hefur bráðnað.  Þegar brauðin eru tilbúin eru fersk basillauf sett ofan á brauðið.

 

Deila.