Villa Antinori Toscana IGT 2010

Villa Antinori er það vín sem Antinori-fjölskyldan í Toskana hefur framleitt hvað lengst en það hefur jafnframt tekið hvað mestum breytingum af Antinori-vínunum. Lengi vel var Villa Antinori Chianti Classico en á síðustu árum hefur það orðið mun „alþjóðlegra“ og franskar þrúgur, Cabernet Sauvignon, Merlot og Syrah eru nú tæpur helmingur blöndunnar og vínið því flokkað sem IGT.

Þetta er þó engu að síður Toskana-vín út í gegn í stílnum, ávöxturinn ferskur, sýrumikill og vínið matvænt. Dökkur, þroskaður ávöxtur, sólbökuð kirsuber, örlítil plóma og töluverð eik, sem lýsir sér í dökku súkkulaði og votti af tóbakslaufum í nefinu. Frönsku áhrifin leyna sér þó heldur ekki með þurru svolítið „Bordeaux“-legu, míneralísku yfirbragði sem kemur betur í ljós eftir því sem vínið fær að standa lengur. Vínið í munni er mjúkt með löngu bragði, hefur mjúka, þægilega áferð, sýra og tannín mild.

2.999 krónur. Mjög góð kaup.

Deila.