Svínakótilettur með beikon- og rjómaspínati

Þetta er kjarnmikill og haustlegur réttur þar sem beikon og spínat eru í aðalhlutverki. Hér erum við með svínakótilettu með spínatinu en það hentar einnig vel með t.d. lambakjöti og hreindýri.

4 svínakótilettur

2 pokar af spínati

150 grömm af góðu beikoni

2,5 dl rjómi

1 stór laukur, fínsaxaður

Múskathneta, rifin

Rósmarín

Salt og pipar

Kryddið kótiletturnar með salti, pipar og rósmarín og steikið í smjöri á pönnu í 2-3 mínútur á hvorri hlið, eða þar til kjötið hefur tekið á sig góðan lit. Setjið kjötið í eldfast form og inn í 180 gráða heitan ofn. Kótiletturnar verða ekki lengi inni í ofninum, kannski tíu mínútur eða svo á meðan þið eldið spínatið.

Skerið beikonið í 1-2 sm langa bita og steikið á annarri pönnu þar til þeir verða stökkir, bætið þá saxaða lauknum við og mýkið hann á pönnunni. Setjið nú spínatið út á í skömmtum. Þó svo að magnið kunni að virka mikið er það ekki lengi að skreppa saman þegar það er komið á pönnuna. Saltið og piprið eftir smekk.

Hitið rjómann upp á sömu pönnu og þið steiktuð kjötið. Hitið upp að suðu og sjóðið niður um helming. Hellið þá yfir spínatið og blandið vel saman með sleif.

Berið fram með kótilettunum og jafnvel smjörsteiktum kartöflum.

Kröftugt og gott rauðvín með. Ég myndi mæla með til dæmis Columbia Crest Merlot eða Grant Burge Barossa Vines Shiraz.

Deila.