Gérard Bertrand Tautavel 2011

Það þarf vart að kynna Gérard Bertrand lengur en þessi fyrrum franski rugby-fyrirliði er nú einn helsti sendiherra suður-franskra vína í heiminum. Þorpið Tautavel er langt í frá þekktasta víngerðarsvæði Languedoc-Roussillon enda agnarsmátt. Það er að finna vestast við Miðjarðarhafsströnd Frakklands, rétt áður en komið er að spænsku landamærunum og er þekktast fyrir að í hellum við þorpið fundust elstu mannvistarleifar í Evrópu fyrir nokkrum árum – en Tautavel-maðurinn svokallaði reyndist um 400 þúsund ára gamall.

Tautavel frá Bertrand er í vínlínunni Grand Terroir, blanda úr Grenache, Syrah og Carignan. Skarpt í nefi, dökkrauð og svört villt ber og sæt rifsberjasulta,  súkkulaði, lakkrís, ferskar kryddjurtir.  Þetta er vín sem angar af Miðjarðarhafinu, svolítið villt, heitt og seiðandi. Það er gott að gefa því tíma til að opna sig, það er nokkuð tannískt í fyrstu, fín sýra, langt, nokkuð eikað. Með lambi og kryddjurtum.

2.999 krónur. Mjög góð kaup.

Deila.