Rivera Il Falcone 2007

Héraðið Púglía syðst á Ítalíu er þekktast fyrir heit og mikil vín úr þrúgunum Primitivo og Negroamaro. Þar er hins vegar einnig ræktuð þriðja þrúgan sem heitir Nero di Troia. Vínið Il Falcone er eitt af toppvínum vínhússins Rivera sem er staðsett í Castel  del Monte í norðurhluta héraðsins. Það er varla hægt að tala um svalt loftslag á þessum slóðum en vínekrurnar eru oft ansi hátt yfir sjávarmáli og loftslagið því annað en í suðurhluta Púglía.

Il Falcone hefur áður verið fáanlegt hér á landi og fagnaðarefni að það skuli nú aftur komið í hillurnar, enda ansi magnað vín, blandan 70% Nero di Troia og 30% Montepulciano, síðarnefnda þrúgan þekktust fyrir að vera ein meginþrúga Abruzzo-héraðsins.

Fallegur, enn nokkuð dökkur og djúpur litur þrátt fyrir aldur vínsins. Þurr, dökkur, svartur ávöxtur, plómur, sveskjur, þurrara eftir því sem vinnur á. Ferskara en maður á von á og míneralískt, kalkmikið. Flottur tannískur strúktur, mikið og flott vín.

3.397 krónur. Frábær kaup á því verði.

Deila.