Haukur Heiðar: Flottasti bjórbar landsins

Við Aðalgötu á Sauðárkróki stendur yfir 100 ára gamalt hús. Það hýsti apótek hér áður fyrr en hefur nú gengið í gegnum endurnýjun lífdaga og hýsir í dag einn allra flottasta bar landsins. Þetta kann að hljóma ótrúlega en þetta er dagsatt.

 Frá því að Árni Hafstað stofnaði Gæðing Öl brugghús hefur gestagangur verið mikill á bænum Útvík í Skagafirði. Gæðingur hefur farið ótroðnar slóðir á þeim tíma, prófað sig áfram við hina ýmsu bjórstíla og stofnað einn vinsælasta bjórbar landsins, MicroBar í Reykjavík, til að koma bjórum sínum og annarra íslenskra ör-brugghúsa á framfæri. Vinsældir barsins hafa verið miklar og þar er nánast fullt út úr dyrum öll kvöld. Reyndar má segja að MicroBar hafi mótað bjórlandslagið í Reykjavík síðustu ár og orðið þess valdandi að bjórar frá íslenskum ör-brugghúsum seljast nú eins og heitar lummur.

Nú hefur Árni fært út kvíarnar og komið á fót Micro Bar í heimabæ sínum sem ber nafnið Microbar And Bed en til stendur að opna lítið gistihús í samtengdu húsnæði. Húsið er á besta stað við Aðalgötu í miðbæ Sauðarkróks. Barinn hefur mikla hlýju og mikið hefur verið lagt til að gera hann heimilislegan og fallegan. Innréttingar eru hlýjar og fallegar. Á barnum mætir nýi tíminn þeim gamla og útkoman er einn flottasti bar landsins. Sumt hefur fylgt húsinu í gegnum árin, annað er fengið frá sveitungum og það nýjasta smíðað á staðnum. Það má með sanni segja að húsið og barinn hafi sinn eigin karakter.

Bjórúrval staðarins er magnað. Á honum eru fjórar dælur þar sem sveitungar og ferðamenn geta gætt sér á Gæðingum Árna. Flöskuúrvalið er veglegt og afar vel valið. Hér má nálgast frábæra bjóra eins og Rochefort 10, Anchorage Galaxy IPA og 3 Fonteinen Oude Geuze svo eitthvað sé nefnt. Gæðingur IPA af krana rann afar ljúft niður á rigningarmiklum laugardegi í Skagafirði.

 Microbar And Bed er dásamleg viðbót í bjórflóru landsins og ástæða út af fyrir sig til að leggja land undir fót og njóta góðra veiga á flottum bar á einum af fegurstu stöðum landsins.

Deila.