Haukur bloggar: Hrekkjalómur

Haustbjórarnir halda áfram að koma í hillurnar og Ölvisholt vekur verðskuldaða athygli í ár með fyrsta graskers bjór Íslands. Miklar breytingar hafa orðið á rekstri Ölvisholts síðastliðið ár og það er gaman að sjá að sköpunargleðin fær engu síður að njóta sín.

Graskers bjórar eru gríðarlega vinsælir haustbjórar í Bandaríkjunum og rúmlega 400 graskers bjórar rata í hillur víðsvegar um Bandaríkin á haustin árlega. Þetta er að mínu mati afar skemmtileg hefð og gott að fá fleiri vinkla á haustbjóra heldur en bjóra sem eru kenndir við Októberfest í Munchen. Hér er meira verið að höfða til Allraheilagrarmessu sem á sér stað 31. október, betur þekkt sem “Halloween” þar sem grasker leika veigamikið hlutverk. Á þessum tíma eru graskersbökur afar vinsælar og eru bruggarar oft að reyna að ná einkennum bökunnar með notkun krydda fyrir utan graskerið, eins og t.d.kanil og múskat.

Ölvisholti tekst vel til með bruggun á graskers porter sem er ansi skyldur frændum sínum vestanhafs. Dökkleitur með þunnum haus. Í nefi má finna mikla kökulykt, grasker og krydd. Á tungu er hann fremur léttur en þó bragðmikill. Áberandi kryddaður þegar sopinn rennur niður. Hér er fínn porter á ferð og góð viðbót í þá miklu bjórflóru sem er komin hérlendis.

Deila.