Brio de Cantenac 2009

Brio er „sécond“ eða það sem kallað er annað vínið frá Chateau Cantenac Brown í Margaux í Bordeaux. Það verður ekki af Brio skafið að það er nær undantekningarlaust frábært og gefur manni kost á að fá alvöru Bordeaux af Grand Cru ekrum fyrir töluvert minni peninginn en „stóru“ Chateau-vínin. Raunar hef ég reglulega átt þess kost að smakka Brio og Cantenac samhliða og það er magnað hvað það nær að halda í við stóra bróður, ekki síst fyrstu árin. 2009 var síðan stórkostlegt ár í Bordeaux og þetta er með betri Brio-um sem maður hefur smakkað.

Djúpur, dökkur litur. Angan af sólberjum, rauðum berjum, kaffi, tóbak, eikin reykkennd og flott, rennur fullkomlega saman við ávöxtinn. Stíft, aristókratískt og mikið um sig í munni, tannískt og langt. Gott að umhella og má alveg geyma, en er frábært til neyslu núna, með hreindýri eða nautasteik, til dæmis Wellington.

5.699 krónur. Fimm stjörnur fyrir frábært hlutfall verðs og gæða.

Deila.