Chile skorar hátt

James Suckling, sem áratugum var einn af ritstjórum Wine Spectator, birti á dögunum grein á heimasíðu sinni þar sem að hann fjallar um vín frá Chile. Suckling fer mjög lofsamlegum orðum um þróun víngerðar í Chile og þau tækifæri sem þar eru framundan. Suckling smakkaði um 500 vín í vikuheimsókn og niðurstaða hans er sú að líklega sé hvergi annars staðar í heiminum hægt að fá meira fyrir peninginn en í Chile.

Meðal þeirra vína sem fengu hæstu einkunnirnar eru Sena frá Errazuris sem fékk 99 punkta og Montes Folly sem fékk 97 punkta. Síðarnefnda vínið hefur verið fáanlegt hér á landi á veitingahúsum og gegnum sérpöntun.

Tvö önnur Montes-vín fengu 95 punkta, annars vegar Cabernet Sauvignon-vínið Montes Alpha M og hins vegar Carmenere-vínið Purple Angel, en bæði hafa verið fáanleg hér á landi. Sama á við um Cabernet-vínið Don Melchor sem margir þekkja. Þá hlaut vínið Coyam frá Emiliana einnig 95 punkta en það hefur stundum sést hér á landi.

Montes Alpha-línan frá Montes fékk síðan 92 punkta, nánast eins og hún leggur sig.

Deila.