Hvernig eru jólabjórarnir 2015?

Við smökkuðum á dögunum flesta þá jólabjóra sem nú eru komnir í sölu. Nánar um það og niðurstöðurnar þegar kemur að jólabjórum ársins 2015 má lesa um með því að smella hér. Nokkrir bjórar náðu ekki í smökkunina í tæka tíð.

Í smakkteyminu að þessu sinni voru Haukur Heiðar Leifsson frá Mikkeler & Friends, Steingrímur Sigurgeirsson frá Vínótekinu,Hinrik Carl Ellertsson veitingamaður á Hverfisgötu 12 og Dill, Ólafur Ágústsson veitingamaður á Sæmundur í Sparifötunum, Axel Aage þjónn á Dill, Bergur Gunnarsson bruggmeistari á Bryggjan Brugghús, Steinn Stefánsson rekstrarstjóri Microbar og Gunnar Karl Gíslason veitingamaður á Dill.

Á heildina litið var hópurinn ekkert yfir sig hrifinn og sumt olli töluverðri undrun. Bjórunum var skipt í tvennt í smökkuninni, annars vegar einfaldari og hefðbundnari bjórar í lager- og bockstíl og hins vegar stærri og meiri bjórar. Í báðum flokkunum voru bjórarnir smakkaðir blint og ekki fyrr en í lok smökkunar sem að smakkarar vissu hvað þeir höfðu verið að smakka. Öllum bjórum var gefin einkunn á bilinu 1-5 og miðast einkunnin við í hvaða flokki bjórinn er, það er í léttari flokknum eða þyngri flokknum.

Hér eru helstu niðurstöður og komment smakkara á meðan á smökkun stóð og bjórarnir í þeirri röð sem að þeir voru smakkaðir.

Jóla Thule

Stál og karamella, léttur, ekki karaktermikill bjór. Bjór sem almenningi ætti að líka við. Maltmikill. Léttur og beiskja í eftirbragðinu. 1,5-2

Egils Jólagull

Kandís, saison en samt ekki saison-fílingur í nefi, stál, grösugir humlar, eins og slæmt heimabrugg sagði einn smakkarinn, mjög sýrumikill og beiskur, 0,5-1

Jóla Kaldi

Súrhey, vottur af súkkulaði, karamella, sæta, óaðlaðandi maltlykt.  1

Jóla Viking

Bjórlykt, ekki mikið þarna, smá malt og smá karamella, en í góðu jafnvægi, fín ending. Ekki stór bjór en ekkert sem stuðar. Smá krydd úr grösugum humlum. Ekkert vont við þennan bjór var niðurstaðan – en kannski ekki heldur neitt mjög jólalegt við hann. 2,5-3

Samuel Adams Winter Lager

Bismarck-brjóstsykur, þurrkaðir ávextir, svolítið gervileg sæta, góð sýra, ferskleiki, ágætis bjór.  2,-2,5

Jóla Steðji

Þessi bjór kallaði fram skrautlegar lýsingar. Gömul íþróttataska var nefnd, mikið ger, humarsoð af einhverjum ástæðum áberandi, 0,5-1

Jóla Tuborg

Bjór, smá kandís, korn, smá sæta aftar, klístrar, gervileg kolsýra, stál. Meira í bragði en nefi, smá gervi, en samt með þeim skárri. 2

Steðji Special

Hérna var kominn smá huggulegur litur,  mikið lakkrísbragð sem hangir vel, kannski einum of vel í munni. 1,5-2

Ölvisholt Jólabjór

Greni, mikið kryddaður, negull, kanill, svolítið flatur aftast, bjór með mat, smákökum.  Ber þó ekki alveg kryddin 2-2,5

Viking Jólabock

Hubba hubba tyggigúmmi, undirliggjandi kælisprey, menthos, mikil beiskja. Menn voru þó sumir á því að þeir myndu alveg klára glasið ef það væri boðið fram  1,5-2,5

Einstök Doppelbock

Mikil súkkulaðisæta, ágætis balans, greinilegur bockur, takmörk fyrir því hvað hann getur orðið góður sögðu sumir.  Eitthvað jólalegt við þennan bjór engu að síður, áberandi kryddtónar. Allt í lagi bjór. 3

Boli

Í nefi smá reykur, dökkur, súkkulaði,  nokkuð léttur, ágætlega þægilegur, örlítið væminn  1,5

Í síðari hluta smökkunarinnar var komið að stærri bjórum, áfengari og meiri um sig. Hér voru erlendir bjórar fyrirferðarmeiri.

Brewdog Santapaws

Smá lakkrís, súkkulaði, beiskur í lokin, allt í lagi, góð beiskja, súkkulaði, heilsteyptur og flottur. engin spurning. „Næs“. 3

Pottaskefill

Byrjar á smá hoppyness, gefið honum smá stund þá kemur það, lifrapylsa, járn, balansinn mætti vera betri, stuttur, deyr nokkuð hratt, sæta. Mjög spes, sagði einn. „Veit ekki hvort mér þykir þetta gott eða vont – svolítið eins og Sviss“. 2

Shepherd Neame & Co Christmas Ale

Banani, pínu karamella, smjör, nammibarinn í Hagkaup, sætur og ágætlega langur, beiskur  2-2,5

Mikkeller Red White Christmas

Þetta er gott, heyrðist í smökkurum, greni og engifer, verulega humlaður, smá sítrus í lokin. „Bjórnördar munu elska þennan. Fyrir þá“. Aðrir hugsanlega ekki eins hrifnir. Mjög beiskur. Mjög fruity. Virkilega flottur. 4

Mikkeller Ris a la Male

Kirsuber, möndludropar, mjög cherry-legur í munni, daufur í lykt, mikill í munni, mikið berjabragð, möndlur í eftirbragði, 3-3,5

To øl Snowball

Sítrus, viður, ger, súrt baggaplast, sítrusbörkur, blóðgreip, frábærlega balanseraður. Jól allt árið. 4,5

Brewdog Hoppy Christmas

Blússandi greni og ..já… kattarhland, Léttur, mjög jólalegur, massívt greni, líklega sá jólalegasti. Mangó og ávextir, topp IPA. 4-4,5

Mikkeller Hoppy Lovin Christmas

Svolítið lokaður, appelsínur, örlítil efnalykt, Þurr, góð beiskja. Einhver nefndi að hann væri svolítið „off“  2-2,5

Corsendonk Christmas Ale

Gerjaður eplasafi í nefi, belgískur stíll, þrusu vel gerður Belgi, mjög þroskaður ávöxtur, sæta, flottur bjór.  3,5-4

Giljagaur

Sæt, svolítið klístruð angan, „off, off“ sagði einn, skrýtið ger, sagði annar, illa balanserað. „Allt rangt við þetta,“ var eitt kommentið. 1

N‘Ice Chouffe

lakk, rúsínur, sprittaður, vantar boddý miðað við brögðin og áfengið 2,5

Gouden Carolus Christmas

Freyjudraumur, Toffíkaramella gýs upp, „eitthvað heillandi“ var eitt kommentið, aðrir sögðu hann vera  eins og nammí í glas, en það var ekki að heilla hann. Skiptar skoðanir. 1,5-2

Jólakaldi SúkkulaðiPorter

Súkkulaði, kaffi, hangikjöt. Vantar balans, of mikill reykur og kolsýra. 1,5

 

 

Deila.