Borg/Cigar City Ayacayia frumsýning á Skúla

Miðvikudagskvöldið 14. september verður afrakstur heimsóknar Cigar City til Borgar Brugghús kynntur. Eins og lesendur muna eftir að þá kom Wayne Wambles, yfirbruggari Cigar City hingað til lands í síðasta mánuði og var brugghúsið með kynningu á Skúla Craft Bar.

Wayne Wambles og bruggmeistarar Borgar tóku sig saman sömu helgi og skelltu í eitt stykki „collab“ eða samvinnu bjór. Nú er sá bjór tilbúinn og verður kynntur með pompi og prakt á Skúla á slaginu kl 17:00.

Um er að ræða suðrænann IPA með framúrstefnulegri blöndu af humlum. Mikið var lagt í þennan bjór af öllum sem komu að honum og gefst fólki kostur á að smakka hann, eins dags gamlan, þegar hann fer undir á Skúla. Sjón, eða smökkun í þessu tilfelli, er sögu ríkari!

Vínotek fékk að fylgjast með bruggun bjórsins og verður nánar fjallað um þennan bjór og fleiri nýjungar frá Borg á næstu dögum.

Deila.