E. Guigal Chateauneuf-du-Pape 2011

Chateauneuf-du-Pape er víngerðarsvæði sunnarlega í Rhone í Frakklandi sem að hefur löngum haft yfir sér svol´tið goðsagnarkenndan blæ. Þetta er hérað með mikla sögu, eins og nafn þess gefur til kynna var þetta t.d. á öldum áður sumardvalastaður páfa, þ.e.a.s. þegar að páfinn hafði aðsetur í Avignon en ekki Róm.

Marcel Guigal er vissulega þekktastur fyrir einhver mögnuðust vín veraldar sem hann framleiðir nyrst í Rhone en hann teygir anga sína einnig suður á bóga og eins og allt annað frá þessu vínhúsi er Chateauneuf-vínið afskaplega vel gert, það sýnir sig líka einna helst í „minni“ árgögnum á borð við 2011. Þá er auðvelt að skilja hafrana frá sauðunum. Grenache er ríkjandi í blöndunni (80%) og síðan koma Syrah og Mourvédre auk þess sem nokkrar þrúgur til viðbótar gegna smávægilegu hlutverki.

Nokkuð dökkt á lit, mjög þroskuð kirsuber í bland við kryddjurtir, smá lakkrís og lavender, þétt, góð sýra og mild tannína. Góð ending. Þetta er ekki vín til að geyma mjög lengi, en mun alveg endast í næstu fimm ár eða svo.

 

 

90%

6.299 krónur. Mjög góð kaup. Með villibráð, þar með töldu íslensku lambi. Með bragðmiklum ostum.

  • 9
Deila.