Hörpufiskur Lameloise

Fyrir nokkrum árum snæddum við á þeim stórkostlega veitingastað Lameloise í Chagny í hjarta Búrgund. Hann státar af þremur Michelin-stjörnum og maturinn samkvæmt því. Einn af réttunum sem að enn er minnisstæður var hörpufiskur borin fram á steinseljubeði. Uppskriftina að einfaldaðri útgáfu af réttinum fundum við í uppskriftabók staðarins. Galdurinn er að nota fullt, fullt af steinselju til að búa til þykka sósu eða kannski heldur öllu heldur mauk sem fellur einstaklega vel að steiktum eða grilluðum hörpufiski.

  • hörpufiskur
  • 6 bréf af steinselju, helst flatlaufa ítalskri steinselju
  • 1 dl rjómi
  • 100 g smjör
  • salt og pipar

Hitið vatn í stórum potti. Bætið 1-2 teskeiðum af salti í vatnið. Þegar að það bullsýður er steinseljunni allri bætt út í pottinn. Sjóðið í 4-5 mínútur. Síið vatnið frá og skellið steinseljunni strax í kalt vatnsbað. Síið kalda vatnið frá og maukið steinseljuna í matvinnsluvél.

Hitið rjómann í potti. Þegar að hann byrjar að sjóða er hitinn lækkaður og smjörinu hrært saman við. Þegar að sjörið hefur bráðnað er steinseljumaukinu hrært saman við. Bragðið til með salti og pipar.

Steikið hörpufiskinn í 2-3 mínútur á hvorri hlið á pönnu. Saltið og piprið.

Setjið steinseljumaukið á diska og hörpufiskinn ofan á.

Með þessu gott Chardonnay-vín, helst gott Búrgundarvín.

 

 

 

 

 

Deila.