Trivento Golden Reserve Malbec 2016

Golden Reserve línan frá Trivento hefur verið í miklu uppáhaldi í smökkunum okkar frá því að þau vín komu fyrst til sögunnar enda eru þarna á ferðinni hreint ótrúlega góð vín miðað við verð. Malbec-þrúgan er auðvitað fyrir löngu orðið helsta flaggskip víngerðarinnar í Argentínu og þar er nú ræktað mun meira af slíkum vínum en á upprunalegu heimaslóðum þrúgunnar í suðvesturhluta Frakklands.

Við hittum German de Cesare, víngerðarmanninn á bak við Golden Reserve-línuna í Argentínuheimsókn og má lesa um það  með því að smella hér.

Þetta er ungt og massívt vín, dökkfjólublátt á lit, liturinn djúpur. Dökkur ávöxtur í nefi, krækiber og bláber, sultaðar plómur, ávöxturinn þykkur og þroskaður, eikin er framarlega, mjúk vanilla en líka örlítill reykur og dökkristaðar kaffibaunir, vínið er þétt, kröftug en þroskuð og mjúk tannín, langt. Gefið víninu tíma til að opna sig, umhellið endilega. Vín sem þolir geymslu vel í einhver ár.

90%

2.999 krónur. Frábær kaup. Með öllu rauðu kjhöti, nautasteik og lambi.

  • 9
Deila.