Brio de Cantenac Brown 2014

Ekrur stóru vínhúsanna á Médoc-skaganum í Bordeaux eru miklar eignir og flest húsin framleiða fleira en eitt vín. Efst trónar Chateau-vínið en annað vínið eða það sem Frakkar kalla „deuxiem vin“ eru yfirleitt gerð úr þrúgum af yngsta vínviðnum á ekrunum. Oftar en ekki eru þetta einhver bestu kaupin sem hægt er að gera í betri Bordeaux-vínunum og mörg af þessum vínunum hafa orðið betri og betri með árunum eftir því sem húsin keppast við að gera Chateau-vínið stærra og meira. Þessi vín eru líka tilbúin til neyslu fyrr en stóru vínin, jafnvel 3-5 ára gömul.

Brio de Cantenac er eins og nafnið gefur til kynna annað vínið frá Chateau Cantenac-Brown í Margaux. Cantenac-Brown fer ekki fram fram hjá neinum sem þarna ekur um sveitir, tignarlegt og mikið setur í Tudor-stíl. Húsið er flokkað sem 3éme Grand Cru Classé samkvæmt flokkuninni frá 1855.

2014 var prýðilegt ár í Bordeaux og vínið er dökkt og mikið, mjög dökkur ávöxtur í nefinu, sólber og svört kirsuber, fjólur og reykur, sviðinn viður, vínið er þétt í munni, kröftug og mikil tannin, þykkur og djúpur ávöxtur, míneralískt, langt. Þetta er vín sem mun njóta sín vel tíu ára gamalt og í dag er best að umhella því og gefa góðan tíma til að opna sig.

90%

5.499 krónur. Frábær kaup. Með nautalund, með hreindýri og önd.

  • 9
Deila.