Fullkomin fágun í Rioja

Það getur líklega ekkert vínhús á Spáni gert sama tilkall til þess að vera samofið sögu víngerðar þar í landi með sama hætti og Marques de Murrieta. Það framleiðir nú einhver tignarlegustu vín Spánar, hin ótrúlegu Castello Ygay-vín en líka eitthvert flottasta rósavín landsins og með bestu Reserva og Gran Reserva-vínum Rioja. Fulltrúi Murrieta, Barjo Laroca, var staddur hér á landi í byrjun mánaðarins og við ræddum við hann um Marques de Murrieta og þróun vínanna.

Það var um miðja nítjándu öld sem að Luciano de Murrieta y Garcia-Lemoine kom heim eftir að hafa búið í London um skeið þar sem að hann kynntist vínmenningu með öðrum hætti en áður en London var þá miðstöð vínviðskipta í heiminum. Hann hélt í kjölfarið í nokkrar ferðir til Bordeaux í Frakklandi þar sem hann kynnti sér víngerðaraðferðir stóru vínhúsanna. Þetta varð til að hann ákvað að gera eitthvað sambærilegt á heimaslóðunum, ekki síst að nota eikartunnur líkt og hann hafði séð í Bordeaux. Hann prófaði sig áfram í víngerð í Rioja og var sá fyrsti til að hefja útflutning á vínum þaðan. Árið 1872 festi hann kaup á landi austur af borginni Logrono þar sem að hann skipulagði umfangsmiklar vínekrur og byggði upp glæsilegan kastala – Ygay – sem gefur Chateau-um í Bordeaux ekkert eftir. Vínhúsið varð strax í fremstu röð og ekki leið á löngu þar til að Spánarkonungur veitti honum aðalstign markgreifa eða Marques.

Markgreifinn féll frá árið 1911, hann átti enga afkomendur en frændi hans tók við rekstrinum og var Ygay áfram í eigu fjölskyldunnar til ársins 1983. Þá festi auðmaður frá Madrid, Vicente Cebrián-Sagarriga, kaup á eigninni en hann átti fyrir vínbúgarð í Rias-Baixas í Galisíu. Murrieta var þegar hér er komið við sögu í frekar sorglegu ástandi. Lítið hafði verið um fjárfestingar frá því að markgreifinn féll frá og nýr eigandi þurfti að byggja upp víngerðina og rækta upp ekrur frá grunni. Aftur urðu kaflaskil þegar Vicente féll frá árið 1996 og sonur hans, þá einungis rúmlega tvítugur, tók við stjórninni. Sonurinn Vicente Dalmau Cebrián-Sagarriga y Suárez-Llanos hefur komið Murrieta aftur í röð allra fremstu vínhúsa Spánar ásamt systur sinni sem sér um reksturinn. Vicente byggði upp mjög ungt teymi í kringum sig og vakti heimsathygli með víninu Dalmau, nútímalegu einnar ekru ofurvíni með Cabernet Sauvignon í blöndunni.

Laroca segir að Dalmau hafi sýnt og sannað að Murrieta gæti enn hrist upp í markaðinum, vínið hefur fest sig í sessi og nýjasti árgangurinn, sem er 2014, fékk nýlega 98 punkta hjá Decanter og var valið besta Tempranillo ársins í heiminum.

2004 var líka ráðist í endurreisn Ygay-kastala sem þegar upp var staðið var byggður upp frá grunni, stein fyrir stein og er á ný orðinn eitt helsta tákn Rioja-héraðsins. Víngerðin hefur sömuleiðis verið endurnýjuð með fullkomnustu tækni sem völ er á.

Vínið lagaði sig líka að breyttum smekk neytenda. Nýjaheimsvínin höfðu tekið heiminn með stormi á tíunda áratug síðasta aldar og neytendur kynnst vínunum sem voru bæði auðveld og aðgengileg en jafnframt það margslungin og vönduð að þau höfðuðu til sérfræðinganna líka. Víngerð Rioja var hins vegar svolítið svolítið föst í gömlu fari þar sem vínin – ekki síst gran reservurnar voru geymdar í óratíma í eik. Jafnvel áratugum saman. Murrieta var og er í fararbroddi nýbylgjunnar í Rioja og toppvínið Ygay er nú einungis látið liggja í tvö ár á tunnu.

Nýsköpunin hélt líka áfram með hvítu ofurvíni. Rétt eins og Dalmau er Capellania einnar ekru vín en ekran er á hæsta punkti Ygay-búgarðsins í tæplega 500 metra hæð yfir sjávarmáli. Einungis er notuð þrúgan Viura (Macabeo) sem oft getur verið einföld og létt en tekur þarna á sig allt aðra mynd en maður er vanur, Viura umbreytist þegar að hún kemst í snertingu við eik og úr verður vín sem er massívt en ferskt og má vel bera fram með hvítu kjöti eða jafnvel lambi.

Rósavínið Primer Rosé er sömuleiðis allt öðru vísi en maður á að venjast þegar spænsk rósavín eru annars vegar, það kemur úr fyrstu pressun Mazuelo-þrúgna sem notaðar eru í Ygay, safanum sem rennur frá þegar að þrúgurnar eru stilkhreinsaðar. Þétt, ferskt og meira að segja smá tannískt rósavín. Fyrsti árgangurinn kom 2014, framleiðslan er eðli málsins samkvæmt takmörkuð, þetta er ekkert venjulegt rósavín en þess má geta að spænska dagblaðið El Pais valdi það besta rósavin Spánar í maímánuði.

Flaggskipið er hins vegar eftir sem áður Reserva-vínið. Af þeim 1,3 milljón flöskum sem Murrieta framleiðir árlega er um ein milljón Marques de Murrieta Reserva, þetta er vínið sem skiptir fyrirtækið mestu máli og það verður að vera fullkomið á hverju ári. Þar fyrir ofan kemur svo hin tignarlega og flotta Gran Reserva, sem framleidd er í um 50-60 þúsund flöskum.

Algjörlega mögnuð vín, frá Reserva og upp í hvíta Ygay-vínið sem er með mögnuðustu hvítvínum heims, nokkrir af gömlu árgöngunum hafa fengið 100 punkta frá Parker sem er einsdæmi. En þá erum við líka farin að tala um 500 evrur á flöskuna fyrir nýju vínin og afar takmarkaða framleiðslu.

Deila.