Trapiche Gran Medalla Malbec 2016

Trapiche er stærsta og eitt elsta vínhús Argentínu og hefur verið leiðandi á mörgum sviðum þau 130 ár sem það hefur starfað og að mörgu leyti dregið vagninn ásamt hinum risanum, Catena-Zapata, í að koma argentínskum vínum á kortið alþjóðlega á síðustu árum. Eins og gefur að skilja er Malbec-þrúgan áberandi í úrvalinu hjá Trapiche og Gran Medalla er eitt af toppvínunum, þrúgurnar koma frá einni ekru af svæðinu Uco, sunnarlega í Mendoza, sem er með bestu ræktunarsvæðunum. Ekran er í Los Arboles og er með þeim hæstu í Mendoza eða í um1.250 metrum yfir sjávarmáli.

Vínið er mjög dökkt og liturnn þéttur, í nefinu þykk, dökk berjaangan,  bláber og krækiber, þarna er líka vottur af lakkrís og mildri eik. Í munni mjög slípað,  elegant og í frábæru jafnvægi, mjúk, kröftug tannín, fersk og fín sýra, langt. Vín sem hefur gott af því að fá umhellingu svona klukkustund áður en það er borið fram.

100%

3.699 krónur. Frábær kaup á þessu verði. Þetta er nautakjötsvín, fyrir góða Porterhouse og Ribeye.

  • 10
Deila.