Clos de Temple – rósavín í ofurklassa

Rósavín og Suður-Frakkland eru samofin en lengi vel voru það fyrst og fremst rósavínin frá Provence sem að flestir tengdu við. Á undanförnum árum austari hluti frönsku Miðjarðarhafsstrandarinnar, Languedoc-héraðið, hins vegar verið að sækja í sig veðrið og er nú að taka forystuna þegar kemur að framleiðslu á rósavínum. AOC-svæðið Languedoc er mjög víðfeðmt en innan þess eru einnig komnir all nokkrar skilgreiningar á undirsvæðum sem hafa sín tilteknu sérkenni.

Það er einmitt á einu slíku, Cabriéres innan undirsvæðisins Pézenas, sem að Gérard Bertrand ákvað að hefja framleiðslu á rósavíni sem markar sér stöðu í ofurdeild vína í heiminum. Ekki einungis var markmiðið að framleiða vín er bæri af öðrum rósavínum heldur er Clos de Temple ætlað að keppa við bestu hvitvínin líka.

Cabriéres er að finna norður af Montepellier og gerir tilkall til þess að vera fæðingarstaður rósavína með vísan í hemildir um vín sem nefnt var Vermeil frá fimmtándu öld. Þau þóttu einstaklega góð og voru meðal annars hirðvín við Versali.

Þannig að það er kannski að furða að Bertrand hafi horft til þessa svæðis þegar hann hóf leitina að ekru er gæti gefið af sér vín sem væri „ekki eins og önnur rósavín, heldur vín sem er eitthvað allt annað.“

Þegar maður kemur að Clos de Temple skynjar maður strax að hér er eitthvað sérstakt í gangi, ekrurnar eru umluktar hæðum í allar áttir sem mynda þarna einstaka vin með sitt eigið, verndaða loftslag. Þarna var að finna gamlan vínvið, allt að áttatíu ára gamlan, sem vex í flöguberginu sem einkennir ekrurnar og myndar nú uppistöðuna í þessu rósaofurvíni.

Bertrand festi kaup á landareigninni árið 2016, alls um tólf hektörum og tók um bíódýnamíska eða lífeflda ræktun líkt og á öðrum landareignum sínum. Vínviðurinn er aðallega Cinsault og Grenache en þarna er líka að finna Syrah og Mourvédre og hvítan Viognier og Bertrand notaði fyrstu árin til að prófa sig áfram með stílinn sem hann vildi ná fram.

Þekktur suður-franskur arkitekt, Francois Fontés, var fenginn til að hanna stórbrotna byggingu sem fellur inn í náttúruna og annar þekktur franskur hönnuður, Marie Legallet, hannaði einstaka flösku fyrir vínið. Í gegnum hönnunina er unnið með gríska táknið phi, sem oft er litið á sem tákn heimspekinnar.  Fyrsti árgangur vínsins var  síðan loks kynntur við athöfn á þriggja Michelin-stjörnu staðnum Guy Savoy í París sumarið 2019.  

Við smökkuðum tvo árganga með  Benjamin Gadois, víngerðarmanni Clos de Temple. Vínin bæði mjög fölbleik, míneralískt og þétt,  2021 skarpara, kryddaðra, lifandi sýra og steinefnaríkt, vottur af kandís og fennelfræum, 2021 mýkra, ávaxtameira með mildum rauðum berjum. Gadois tekur fram að hann vilji ekki eikina í bragði vínsins, markmiðið sé ekki að það bragðist af einhverju heldur frá einhverju, það dragi fram svæðið. Þetta er vín sem minnir frekar í stíl á stór hvítvín sem þola geymslu heldur en léttu og sumarlegu rósavínin sem við tengjum yfirleitt við þennan vínstíl. Það verður spennandi að fylgjast með Clos de Temple á næstu árum.

Deila.