Catena í Mendoza er með stærstu nöfnum argentínskrar víngerðar og framleiðir vín í nokkrum gæðaflokkum, allt frá Alamos upp í Catena Zapata-línuna. Þetta eru alla jafna þétt og flott vín sem staðsetja má í stíl á milli Suður-Evrópu og Nýja-heimsins og hljóta reglulega mikið lof á alþjóðlegum vettvangi.
Catena Malbec 2007 er dökkt og mikið vín, plómubúðingur, vanilla, græn paprika og sólber í nefi, nokkuð kryddað með flottu samspili af eik og ávexti. Þykkt og mjúkt í munni, rismikið með mjúkum tannínum á lokasprettinum.
Með nautakjöti…og raunar flestu kjöti.
2.998 krónur.