Kokkteilar Kolabrautarinnar

Það fyrsta sem blasir við manni þegar gengið er að Kolabrautinni á fjórðu hæð Hörpunnar er veglegur kokkteilbar þar sem gestir geta setið og notið útsýnisins við höfnina. Líklega hefur sjaldan ef þá nokkurn tímann verið lagt jafnmikið í kokkteilbar hér á landi.

Yfirbarþjónn Kolabrautarinnar er Svíinn Christian Hägg sem flutti hingað til lands ásamt íslenskri unnustu sinni fyrir sjö mánuðum síðan. Hann hefur komið víða við og aðallega unnið á börum og stórum hótelum í Danmörku og Svíþjóð en einnig á skemmtiferðaskipum og í Grikklandi. Áður en hann flutti til Íslands starfaði hann sem barþjónn á Norefjell Spa & Resort skammt frá Ósló í Noregi, stærsta hóteli Norðurlanda sem tekur um 2000 gesti.

Hägg er barþjónn af lífi og sál og því kom ekkert annað til greina en að starfa áfram sem slíkur þótt hann flytti til Íslands. Hann segir að fyrst eftir komuna hingað hafi hann kynnt sér það sem væri að gerast í kokkteilmenningu en ekki fundið mikið sem ætti við sig. Fljótlega hafi hann hins vegar heyrt af því sem væri á döfinni í Hörpunni og haft samband við þá Leif Kolbeinsson og Jóhannes Stefánsson sem voru að undirbúa opnun Kolabrautarinnar.

Þetta var að mörgu leyti draumaverkefni því hann fékk tækifæri til að hanna barinn algjörlega frá grunni og búa til sinn óskabar með fullkominni vinnuaðstöðu. Allt hráefni sem hægt er að hafa ferskt er ferskt. Safar nýpressaðir, ávextir og ber og heimatilbúin síróp. Þá er bryddað upp á ýmsum nýjungum sem ekki hafa sést mikið hér, t.d. ávaxtakavíar, en sú tækni er einnig notuð í eldhúsinu.

Það eina sem hann hefur lent í vandræðum með er að fá einstakar áfengistegundir því úrvalið hafi dregist mjög saman eftir hrun. Og jú, hann segir vandkvæðum bundið að fá góðan klaka. Mikið er lagt í glös og búnað og allir drykkir eru blandaðir uppi á borði fyrir framan gesti.

Hägg er ekki mikið fyrir sæta kokkteila og er áherslan á klassíska jafnt sem nútímalega kokkteila sem ekki er spillt með of mikilli sætu, hvað þá gosi. Mikið er lagt upp úr hinni tæknilegu hlið barþjónastarfsins og færni. Barinn er opin fyrir alla gesti og um helgar verður mynduð lounge-stemmning með tónlist frameftir kvöldi.

Húskokkteillinn heitir Fourth Floor eða fjórða hæðin og eru það hindber sem þar ráða ferðinni, bæði hindberjavodka og hindberjalíkjör. Aðrir spennandi kokkteilar eru rommkokteillinn Treacle og ginkokkteillin Ramos Gin Fizz. Það má segja að Mint Julep sé eins konar mojito Suðurríkja Bandaríkjanna borinn fram í silfurglasi samkvæmt hefðinni. Lipgloss Martini er hins vegar borinn fram í gamaldags kampavínsskál með hindberjafroðu ofaná.

Deila.