Ég er sjúk í allt með kanil og þegar ég rakst á þessa uppskrift þá bara varð ég að prófa (ath. bollamálin eru amerísk).
Deigið:
- 2 msk smjör
- 1 bolli mjólk
- 1/3 bolli vatn
- ¼ bolli sykur
Setjið smjör, mjólk, vatn og sykur saman í lítinn pott og hitið þar til smjörið er bráðnað.
- 2 ¼ tsk þurrger
- 3 ¼ bolli hveiti
- 2 tsk salt
Blandið þurrefnunum saman – ég geri það í hrærivélaskál. Þegar smjörið og mjólkin hafa aðeins kólnað (ca 37 gráður) þá er hrærivélin sett í gang og blöndunni hellt varlega út í hveitiblönduna. Ég er svo löt ég nenni ekki lengur að hnoða deig, heldur læt hrærivélina um þetta.
Deigið er svo látið hefast í ca klukkustund – munið að hylja skálina á meðan annars verður það þurrt (mér finnst plastfilma góð til þessara nota).
Þegar deigið hefur hefast þá búið þið til litlar kúlur úr deiginu.
Bræðið ½ bolla af smjöri. Blandið saman 1 bolla af púðursykri og 2 ½ tsk kanil. Veltið nú kúlunum fyrst upp úr smjörinu og svo upp úr kanilsykursblöndunni. Kúlunum er svo raðað í smurt hringform.
Nú þarf deigið að hefast aftur í ca 45 -60 mín. Á meðan hitiði ofninn í 180°C. Skellið forminu inn í ofninn og bakið í ca 20-25 mín. Passið að baka ekki of lengi.