Austur-Indíafjelagið

Ég hef nokkrum sinnum fjallað um Austur-Indíafjelagið við Hverfisgötu í gegnum árin. Enda rík ástæða til. Ekki einungis sú að Austur-Indíafjelagið hefur nánast frá opnun verið einn af mínum uppáhaldsveitingastöðum heldur einnig vegna þess að staðurinn hefur verið í stöðugri þróun og endurnýjun. Þrátt fyrir að hafa hitt á ansi góða formúlu í upphafi hefur Austur-Indíafjelagið verið á stöðugri siglingu fram á við. Ég held að það sé óhætt að fullyrða að leitun sé að jafngóðum indverskum veitingastað – og þá er ég ekki einungis að tala um Ísland. Jafnvel þegar maturinn er borinn saman við bestu indversku veitingastaði London (eða Dehli) þarf Austur-Indíafjelagið ekkert að skammast sín. Þvert á móti.
Þróun staðarins hefur verið í átt að hágæða veitingastað á öllum sviðum. Frá því að vera einfaldur og kósí indverskur staður yfir í að vera glæsilegur staður með smart innréttingum og einstökum indverskum fornmunum sem veggjaprýði. Það er meira lagt upp úr öllu en í upphafi, ekki bara í eldhúsinu heldur einnig í innréttingum og borðbúnaði. Vissulega endurspeglast það einnig í verðlagi staðarins. Hann er ekki lengur ódýr, en samt sem betur fer ekki heldur mjög dýr.

Matseðillinn er nú tvískiptur. Annars vegar eru réttir úr tandoor-ofni og hins vegar réttir héðan og þaðan af Indlandi, sem endurspegla ágætlega þá breidd sem landið hefur upp á að bjóða í kryddnotkun og matargerð. Úr tandoor-ofninum komu t.d. risarækjur tandoori jhinga, rauðar af kryddinu og mildar í bragði eftir að hafa legið í jógúrtlegi fyrir eldun. Sóma sér vel með blönduðu smátt skornu grænmeti og hrísgrjónum.

Lambarétturinn gosht kalimirchi brakandi heitur á laukbeði en kjötið engu að síður ekki gegnumeldað. Kryddblandan alveg hreint stórkostleg í bland við lambið, pipar, chili ásamt garam masala og borið fram með kóríandersósu. Einhver skemmtilegasta útgáfan af lambakjöti sem ég hef fengið lengi, hreinasta unun að borða það og ég vil ganga svo langt að segja að þetta sé einhver besti réttur sem staðurinn hefur boðið upp á frá byrjun.

Annar lambaréttur sem varð fyrir valinu gat ekki verið ólíkari. Kaja Gosht Masala er dæmigerður norður-indverskur réttur sem byggist meira á sósunni en kjötinu. Hún er þykk og bragðmikil, rjómakennd með flóknu kryddblöndubragði. Ekki síður ljúffeng en fyrri rétturinn.

Sömuleiðis í þykkri sósu var suður-indverski kjúklingarétturinn malabar kozhi curry þar sem kóríander og karrílauf gefa tóninn í bland við sæta kókosmjólk og greinilegt en hófstillt chili.

Hrísgrjón koma með öllum réttum en einnig er eiginlega skylda að panta sér naan-brauð úr tandoor-ofninum (sem ég get fullyrt eftir að hafa ferðast víða um Indland að sé óvíða betra en á Austur-Indíafjelaginu) og raitu jógúrtsósu.

Góður staður fyrir hópa

Þjónustan á Austur-Indíafjelaginu er alla jafna mjög góð og skilvirk. Máltíð þarna er hvað skemmtilegust ef hópur borðar saman þannig að hægt er að panta sem flesta rétti. Þeir koma ekki á diskum heldur í sérstökum ílátum á borðið og síðan skammta menn sér að vild á diskinn. Ef svo ólíklega vill til að of mikið hefur verið pantað og einhverjir afgangar eru eftir á borðinu er ekkert mál að biðja starfsfólkið um að pakka matnum inn og njóta svo áfram af honum daginn eftir.
Vínlistinn hefur löngum verið einhver veikasta hlið staðarins og svo er enn þótt glösin séu betri en þau voru. Hann samanstendur fyrst og fremst af nýjaheimsvínum úr þrúgunum Chardonnay og Cabernet, sem eiga svo sem sæmilega við matinn en eru innbyrðis mjög lík.

Á móti má svo sem segja að indverskir vínlistar eru alla jafna mjög óspennandi. Það væri þó kannski ástæða til að hafa svo sem eitt indverskt vín á matseðlinum? Sum þeirra, s.s. frá vínhúsinu Sula, eru alveg hreint boðleg og gætu verið skemmtilegt inlegg.

p.s. Þess má geta að Austur Indíafjelagið hefur um nokkurt skeið verið með einfaldara útibú ofar á Hverfisgötunni sem heitir Austurlandahraðlestin og hafa útibú nú einnig verið opnuð í Hlíðarsmára í Kópavogi og Spönginni í Grafarvogi.

 

 

 

 

 

Deila.