Tælandi og heimilislegur

Það er rúmur áratugur liðinn frá því að taílenskir veitingastaðir fóru að spretta upp hér og þar um borgina. Fram að þeim tíma höfðu flestir austurlenskir staðir á Íslandi verið í anda kínverskrar matargerðar og þá oftar en ekki þeirrar útgáfu kínverskrar matargerðar sem þróast hafði á Vesturlöndum.
Eftir því sem innflytjendum frá Taílandi, Víetnam og Filippseyjum fjölgaði hér á landi fór áhrifa þess að gæta jafnt í matvöruúrvali sem veitingahúsaflórunni. Yfirleitt voru þetta litlir staðir reknir af framtakssömum fjölskyldum og maturinn einfaldur, heimilislegur, ódýr og góður.

Allir hafa þeir ekki staðist tímans tönn og sumir hafa skipt um eigendur og jafnvel orðið að eins konar keðjum.

Ein af perlunum í þessum flokki veitingastaða hefur lengi verið Ban Thai, lítill og hógvær veitingastaður á Laugavegi 130, rétt ofan við Hlemm. Það voru hjónin Tómas og Dúna Boonchang sem hófu þennan rekstur og smám saman fjölgaði þeim sem hvísluðu sín á milli um litla taílenska staðinn á ofanverðum Laugavegi. Á síðasta ári færðu Boonchang-hjónin út kvíarnar og opnuðu annan stað, Na Na Thai, í Skeifunni.

Ban Thai er óneitanlega staður með karakter. Maður gengur beint inn í matsalinn frá Laugaveginum. Neðri hæðin er eitt rými með nokkrum borðum og eldhús inn af því. Veggirnir gulmálaðir, brúnar stórar flísar á gólfunum, glerplötur á borðunum og blandaðar skreytingar með taílensku ívafi á veggjunum. Á efri hæðinni eru síðan nokkur herbergi með enn fleiri borðum. Það er hins vegar yfirleitt mest um að vera á neðri hæðinni og þjónustan alla jafna betri.

Matseðillinn er langur og yfirgripsmikill, einir sjötíu réttir, flestir þeirra á fínu verði Á fyrstu síðunni er stutt yfirlit um taílenska matargerð og á vínseðli er nokkuð úrval af taílenskum vínum og bjór.

Við byrjuðum á Satay-grillpinnum sem njóta mikill vinsælda í Suð-austur Asíu. Þessir voru góðir, kolagrillaðir með heimatilbúinni satay-jarðhnetusósu, bragðmikilli með grófmuldum hnetum. Með þessu agúrkusneiðar eins og vera ber. 

Einnig var bragðað á djúpsteiktum rækjum með súrsætri hnetusósu eða Koon Chup Pang, en einhver útgáfa af slíku virðist vera ómissandi á öllum íslensk-asískum stöðum. Þessar voru í betri kantinum, maður fékk virkilega rækjur en ekki einungis djúpsteikt deig og sósan var góð.

Pad Me Cueng voru ágætar hrísgrjónanúðlur, steiktar í tómat- og ostrusósu þar sem tómatsósan var nokkuð ríkjandi. Í bland töluvert af wok-steiktum kjúklingi, rauðum og grænum paprikum. Mildur og miðlungs.

Vinsæll nautaréttur á Ban Thai er Pad Kra Tao, kjötið er steikt á wokpönnu með miklum lauk, hvítlauk, fersku chili og basil. Mér þótti hann frekar bragðdaufur, að chili-piparnum frátöldum, og kjötið ekkert sérstakt.

Annar mjög mildur réttur (að þessu sinni nær laus við chili) var Kang Pa Massaman. Þetta var karrí-réttur, þ.e. í kryddsósu, þessi með hnetum, kókosmjólk, kartöflum og kjúklingi. Ágætur en ekki mjög afgerandi.

Langbestur þótti mér annar karrí-réttur, Kaen Pa Nang. Einnig með kjúklingi en karrí-sósan sterk, bragðmikil og bragðgóð með lime-laufum í aðalhlutverki.

Ban Thai er vinalegur og heimilislegur staður og maturinn ágætur og ekkert sérstaklega dýr en heldur ekkert sérstaklega ódýr. Skammtarnir eru ekki sérstaklega stórir og best er að panta nokkra rétti á borðið og skipta þeim á milli sín. Má þá miða við einn og hálfan til tvo rétti á mann. Með aðalréttunum koma hrísgrjón. Eins og áður sagði er af nógu að taka á matseðlinum og helsta vandamálið fyrir gesti líklega að velja úr allri þeirri flóru.

Þjónusta er vinaleg og góð en tónlistin var svolítið sérstök, ég gat ekki betur heyrt en verið væri að spila spænska og ítalska slagara. Myndaði óneitanlega fjölþjóðlega stemmningu.

 

 

 

 

Deila.