Colomé

 

Salta í norðurhluta Argentínu er eitthvert afskekktasta og hrjóstrugasta víngerðarsvæði veraldar. Þar að auki er nær hvergi hægt að finna ekrur sem liggja jafn hátt yfir sjávarmáli, eða allt upp í rúmlega þriggja kílómetra hæð. Aðstæður eru mjög frábrugðnar því sem finna má í öðrum víngerðarsvæðum Argentínu, jafnt varðandi jarðveg sem loftslag, miklar hitasveiflur eru innan sólarhringsins, dagar heitir, nætur svalar. Ekki síður er að finna mjög ólík skilyrði innan héraðsins (t.d. varðandi hæð yfir sjávarmáli) og þessi fjölbreyttu ræktunarskilyrði gera að verkum að Salta-vínin eru mjög fjölbreytt.

Vínrækt í Salta má rekja allt aftur til landnáms Spánverja á sautjándu öld og helstu ekrur héraðsins er að finna í Calchaquíes dölunum.

Salta hefur í gegnum tíðina verið þekktast fyrir hvítvín úr þrúgunni Torrontes en þar eru einnig framleitt kraftmikil rauðvín úr Malbec-þrúgunni.

Fyrir all nokkrum árum voru hér í boði Salta-vín frá framleiðandanum Etchart og fyrir nokkru komu markað vín frá Estancia Colomé, einum besta framleiðanda Salta.

Colomé á sér langa sögu, þetta er elsta vínhús Argentínu og á landi Colomé hefur vín verið ræktað frá nýlendutíma Spánverja. Þótt elsti vínviðurinn hjá Colomé sé þó ekki það gamall er hann engu að síður ekkert ungviði. Elstu Malbec-runnarnir voru gróðursettir á nítjándu öld og því með elsta vínvið Argentínu og að auki franskur vínviður frá árunum áður en rótarlúsin phylloxera lagði vínrækt um nær allan heim í rúst. Vínhúsið sjálft var stofnað árið 1831 af þáverandi fylkisstjóra Salta.

Mikil umskipti urðu hins vegar árið 2001 er Donald Hess festi kaup á Colomé. Hess er svissneskur auðmaður sem fékk áhuga á vínrækt eftir heimsókn til Kaliforníu og stofnaði í kjölfarið vínhúsið Hess Collection í Napa. Hann á einnig Glen Carlou í Suður-Afríku og meirihlutann í Peter Lehmann í Ástralíu.

Colomé er hins vegar eitt umfangsmesta verkefni sem hann hefur tekið sér fyrir hendur og líklega það sem stendur hjarta hans næst. Þetta sögufræga vínhús var í mikilli niðurníðslu þegar hann festi kaup á því og margt í víngerðinni allt að því upprunalegt frá nítjándu öld. Nú nokkrum árum síðar er þetta fullkomið, nútímalegt og tæknivætt víngerðarhús sem vakið hefur gífurlega athygli.

Ekket smáverkefni ef haft er í huga að um fjögurra kílómetra akstur er í næsta þéttbýli, borgina Salta.

 

 

Deila.