Fiskmarkaðurinn

Það er asískt andrúmsloft sem tekur á móti manni þegar gengið er inn úr íslenskri nepjunni í hitabeltisveröld Fiskmarkaðarins. Í húsinu við Aðalstræti, sem áður hýsti Maru og þar áður Stick n’Sushi, er búið að skapa hlýlegt og framandi umhverfi sem sækir innblástur jafnt til Indókína sem japanskrar naumhyggju.
Teymið á bak við Fiskmarkaðinn er um margt kunnuglegt frá Sjávarkjallaranum og vissulega má merkja greinileg tengsl í stíl og matargerð við þann stað, enda var Hrefna Sætran matreiðslumaður í Sjávarkjallaranum áður en hún stofnaði Fiskmarkaðinn. Segja má að hún sé fyrsti kvenstjörnukokkur Íslands.

Fiskmarkaðurinn er þó langt í frá einhver eftirlíking af Sjávarkjallaranum. Hann hefur sín eigin einkenni og stíl þótt ræturnar séu þær sömu: Nútímalegt og svalt umhverfi, afslöppuð en góð þjónusta og matargerð sem sækir innblástur til ólíkra svæða Asíu jafnt sem Evrópu í aðferðum og hráefni.

Til að upplifa Fiskmarkaðinn er best að velja smökkunarmatseðilinn. Hann er ekkert óhóflega dýr miðað við hvað er boði – kostar 8.900 krónur – og gefur gestum kost á að smakka á mjög fjölbreyttu úrvali rétta af matseðlinum.

Farið var í gegnum þann seðil í nokkrum heimsóknum og aldrei var hann nákvæmlega eins í tvö skipti. Sumt var þó sem betur fer alltaf til staðar. Gott nýbakað brauð með mismunandi tegundum aïoli, í síðustu heimsókn karrí-kókos, og léttsteiktir baunabelgir sem er ágætis dægrastytting að tæma á meðan beðið er eftir næsta rétti.

Máltíðin er þannig upp byggð að fyrst streyma inn litlir réttir sem gestir skipta á milli sín, nokkrir munnbitar á mann. Þá kemur sushi sem milliréttur, aðalréttir og eftirréttir. Réttirnir eru allir settir á mitt borðið og gestir skammta sér síðan á eigin disk með prjónunum.

Einn af þeim réttum sem oftast er hægt að ganga að sem vísum er kóngakrabbi. Heljarinnar krabbaklær eru bornar fram grillaðar með mildu chilimajonesi. Þetta er réttur sem er í senn upplifun fyrir augað sem bragðlaukana. Krabbakjötið milt og gott og búið að skera úr skelinni þannig að tiltölulega auðvelt er að veiða það upp með prjónunum.

Biti af hjartarkjöti vafinn í lauf með litlu spjóti og foie gras var mildur og þægilegur munnbiti, salat með ávöxtum og cashew-hnetum kannski ekki hápunktur kvöldsins en féll engu að síður vel að heildinni.

Sushi er mjög vel gert á Fiskmarkaðnum, með því betra sem fengist hefur hér á landi. Alltaf fjölbreytilegt, jafnt maki sem nigiri, við fengum til dæmis í einni heimsókn virkilega gott smokkfisks maki en einnig túnfisks- og laxasashimi sem var svo ferskt og ljúft að biðja varð um ábót. Allt er þetta borið fram með hefðbundnum hætti ásamt soja, wasabi og tveimur tegundum af engifer en jafnframt margvíslegu japönskættuðu skrauti, sumu ætu, öðru ekki.

Hægt er að fá saké með sushi-réttunum en ég get þó varla mælt með því, það saké sem hefur verið í boði hefur ekki verið nógu gott. Í eitt skipti var boðið upp á freyðandi saké sem tekið var fram að væri frá „japönsku ölpunum“. Það var ekki betra fyrir það.

Lax var létteldaður og safaríkur og líkt og flestir fiskréttirnir grillaður á Robata-grillinu en í kringum það geta gestir raunar einnig setið og borðað að japönskum sið.

Síðasti aðalrétturinn var andarbringa sem kom niðursneidd, medium steikt og í hoi-sin sósu. Með henni eins konar „waldorf“ úr sætum kartöflum og gúrkum sem mynduðu gott mótvægi við austurlenska kryddið.

Eftirréttirnir voru margir og hver öðrum betri: Heit súkkulaðikaka með ís, tvær sorbet-tegundir með fersku og frískandi ávaxtabragði, heitt hvítt súkkulaði og creme brulée. Ekki síður voru fersku ávextirnir með góðir, jafnt örsmáir ananasar, fersk litka- og skógarber.

Vínlistinn á Fiskmarkaðnum er vel valinn og fjölbreyttur en uppsetningin er óvenjuleg að því leytinu til að víninu er ekki raðað eftir löndum og svæðum heldur flokkað eftir eiginleikum s.s. „frísklegt“ eða „blómailmur“. Sem getur verið gagnlegt en þó ekki ef gestir eru t.d. að leita að einhverju tilteknu, s.s. Chablis eða Sauvignon Blanc frá Nýja-Sjálandi. Þarna er að finna margs konar ágætis vín en ég hef sjálfur einstakt dálæti á hinu austurríska Riesling Am Berg frá framleiðandanum Pfaffl sem er hreinasta sælgæti og fellur fullkomlega að matargerð líkt og þeirri á Fiskmarkaðnum.

Á heildina litið er heimsókn á Fiskmarkaðinn mjög skemmtileg upplifun. Staðurinn býður ekki einungis upp á margbreytilega og vandaða matargerð heldur er jafnframt hægt að njóta matarins í mismunandi andrúmslofti, allt eftir því hvað hugurinn girnist. Þjónusta var ávallt fumlaus og vandvirknisleg, nær aldrei feilpúst í matargerðinni og allir gengu ávallt út með bros á vör. Hvað er hægt að biðja um meira?

Deila.