Fjölbreytni í loftslagi tryggir gæðin

Hin hefðbundnu ræktunarsvæði Chile sem eiga sögu að rekja allt frá nítjándu öld eru öll rétt við höfuðborgina Santiago: í dölunum Maipo, Rapel, Curico og Maule. Lengst af voru allar vínekrur á sléttum dalanna en einnig í þessum héruðum eru menn farnir að teygja ekrurnar lengra og lengra upp í hæðir fjallanna sem alls staðar setja svip sinn á landslagið.

Svæðunum fjölgar líka stöðugt. Ég hef nefnt Casablanca og Colchagua en alltaf eru ný ræktunarhéruð að bætast við þar sem framsæknir framleiðendur uppgötva kjöraðstæður fyrir tiltkeknar þrúgur. Oft eru það lítil vínfyrirtæki sem varða leiðina en þau stóru fylgja oft í kjölfarið. Ný nöfn á svæðum skjóta upp kollinum: San Antonio, Bio Bio og Limari. Sum lengst í norðri, önnur lengst í suðri.

Eitt þeirra svæða sem er svo sannarlega þess virði að leggja á minnið er Leyda innan San Antonio-svæðisins, alveg við ströndina suður af Casablanca. Þaðan smakkaði ég vín úr þrúgunum Sauvignon Blanc og Pinot Noir sem voru hreinlega stórkostleg þó svo að um tiltölulega ung fyrirtæki og ekrur væri að ræða. Vín með dýpt, lengd og mikinn og flottan karakter. Fylgist með vínframleiðendunum Matetic, Amayna og Anakena.

Það er lýsandi fyrir þróunina í Chile að jafnvel í rótgrónustu héruðunum á borð við Maípo eru ný og spennandi fyrirtækið að skjóta upp kollinum. Eitt slíkt er Pérez Cruz, fyrirtæki sem setti fyrstu vín sín á flösku árið 2002 eftir að Huelquén-búgarði fjölskyldunnar var breytt í vínbúgarð. Var sú ákvörðun tekin af ellefu systkinum sem vildu heiðra minningu föðurs síns. Það er kannski dæmigert fyrir ný viðhorf í Chile að í stað þess að vera sjálf að vafstrast í hinum daglega rekstri var sett saman ungt teymi fagmanna sem sér um allt frá vínrækt til alþjóðlegrar markaðssetningar. Pérez Cruz framleiðir einungis rauðvín og einungis toppklassa rauðvín. Forvitnilegast er vínið Cot sem er hið upprunalega nafn Malbec-þrúgunnar. En hver er að leita að Malbec frá Chile þegar Argentína er handan Andes-fjallanna. Cabernet Sauvignon og Syrah vínin standa hins vegar fyllilega fyrir síni og toppvínið Liguai, þriggja þrúgna blanda, er saknnkallaður bolti.

Chile virðist ætla að takast að viðhalda spennunni í kringum vínin sín og stöðu sinni sem eitt framsæknasta víngerðarland Nýja heimsins og ekki síst það land sem hefur hvað mesta möguleika til frekari þróunar til lengri tíma litið. Ofurvínunum – þ.e. stór og frekar dýr vín – fjölgar jafnt og þétt. Þau dýrustu eru langt frá því að vera jafndýr og dýrustu vín Frakklands, Ítalíu eða þess vegna Kaliforníu. Þau verða einnig betri og betri með hverju ári eftir því sem vínviðurinn eldist og víngerðarmenn ná betri tökum á aðstæðum og aðferðum.

Vissulega eru enn blikur á lofti. Markaðurinn er óvæginn og sveiflukenndur og litlu spennandi framleiðendurnir líða fyrir að áhugi vestrænna neytenda er mestur á ódýrum, einföldum vínum. Það sem Chile verður að forðast er að festa ekki í einhverri staðalímynd fyrir vín sín heldur leggja áherslu á breiddina sem landið hefur upp á að bjóða og gæðin en ekki bara rautt og hvítt á 990 krónur.

Deila.