Ein af kvíslunum út úr ánni Ebro heitir Rio Oja og er þekktasta rauðvínshérað Spánar líklega nefnt eftir ánni. Þeir eru þó til sem hallast að þeirri kenningu að nafnið Rioja sé dregið af fornum ættbálki er bjó á svæðinu fyrir tíma Rómverja og nefndist Ruccones og síðar Riugones. Rioja-vínin hafa átt mikinn þátt í því að byggja upp ímynd spænskra gæðavína og náð undragóðum árangri. Hinn þykki, eikaði stíll Rioja-vína með áberandi vanillutónum og góðum þroska höfðar til margra vínunnennda. Íslendingar eru þar engin undantekning og hafa vín frá Rioja verið fyrirferðarmikil í hópi þeirra vína er mestra vinsælda hafa notið hér á landi síðastliðin ár. Má nefna framleiðendur á borð við Montecillo, Marques de Riscal, Faustino og Domecq í því sambandi.
Rioja er í norðausturhluta Spánar suður af borginni Bilbao. Rioja skiptist í þrjú undirsvæði, Rioja Alta, Rioja Baja og Rioja Alavesa. Nokkur munur er á þessum svæðum. Rioja Alta (Efri Rioja) og Rioja Alavesa er að finna í hlíðum Kantabríufjalla. Svalir loftstraumar frá Atlantshafi hafa áhrif á veðráttu og úrkoma er nokkur. Í Rioja Baja (Neðri Rioja) er loftslagið hins vegar mun þurrara og heitara. Vín af vestursvæðunum tveimur eru því sýru- og ávaxtarmeiri og yfirleitt fágaðri, en vínin frá austursvæðinu Rioja Baja þyngri, flatari og áfengari og raunar er ræktun á grænmeti og ávöxtum mikilvægari fyrir íbúana þar en vínrækt. Algengt er að blanda saman vínum frá framleiðslusvæðunum enda eiga flest víngerðarhúsin ekki ekrur sjálf heldur kaupa þrúgur af sjálfstæðum vínræktendum.
Lega héraðsins er að mörgu leyti einstök. Kantabríufjöllin vernda Rioja fyrir hinu svala loftslagi Norður-Spánar og Demanda-fjallgarðurinn í suðri skýlir fyrir veðurofsanum sem stundum einkennir hásléttu Spánar. Ræktunaraðstæður eru því að mörgu leyti einstakar í Rioja og raunar ekki einungis fyrir vín. Paprikur héraðsins eru til að mynda rómaðar um allan Spán og það sama má segja um aspasinn. Matargerð Rioja er því með þeirri betri á Spáni og einkennist af fersku hráefni sem matreitt er á einfaldan hátt. Íbúar Rioja eru hlýlegt og lífsglatt fólk sem hikar ekki við að gefa sér góðan tíma yfir ljúffengri máltíð er gesti ber að garði. Mikið er borðað af grilluðu kjöti og grænmeti, allt frá stórum nautasteikum yfir í smálömb og á veturna eru þungir pottréttir, með miklu af baunum, kartöflum og bragðmiklum chorizo-pylsum vinsælir.
Rioja er að mörgu leyti einangrað hérað og það útheimtir nokkra fyrirhöfn að ferðast þangað. Það er sama úr hvaða átt er komið, nauðsynlegt er að aka yfir fjallgarða til að komast að svæðinu. Því fer ekki mikið fyrir ferðamennsku í Rioja þótt héraðið sé vissulega fagurt og svæðið er strjálbýlt, ef undan er skilin borgin Logroño.
Til Rioja héldu þó franskir víngerðarmenn í hópum eftir að rótarlús lagði ekrur Frakklands í eyði á síðari hluta nítjándu aldar og margir víngerðarmenn sáu fram á að þeir mundu ekki framleiða aftur vín í Frakklandi en í Rioja var nóga vinnu að hafa þar sem franska markaðinn þyrsti eftir víni er franskir bændur gátu ekki lengur framleitt. Flestir komu frá Bordeaux, sem er skammt handan Pýreneafjallanna en einnig eru dæmi um að víngerðarmenn hafi flutt til Rioja alla leið frá Búrgund. Þrátt fyrir að víngerð Rioja eigi sér nokkurra þúsunda ára sögu er það með þessari frönsku innrás sem Rioja-vínin taka á sig þá mynd sem við þekkjum í dag. Frakkarnir fluttu með sér þekkingu og þeir hófu að móta vínin í anda vína frá Bordeaux. Auk þekkingar fluttu þeir með sér þrúguna Cabernet Sauvignon og 225 lítra eikartunnur er á frönsku nefnast barriques en Spánverjar kalla barricas bordelesas. Rioja var mikilvægt framleiðslusvæði fyrir og raunar hófu framleiðendur þar að nota eikartunnur við útflutning á víni um einni öld áður en áhrifanna frá Bordeaux fór að gæta. Það var einnig vegna franskra áhrifa að í Rioja fóru að spretta upp víngerðarhús, bodegas, ekki ósvipuð þeim í Frakklandi. Mikill uppgangur var í vínrækt í Rioja á þessum árum en aftur fór að halla undan fæti í lok nítjándu aldar er vínrækt fór í gang á nýjan leik í Frakklandi.
Annar afturkippur kom með spænsku borgarastyrjöldinni á fjórða áratugnum og í raun var það ekki fyrr á síðari hluta tuttugustu aldarinnar að Rioja fór að braggast á ný. Vínlöggjöfin frá 1970 setti vínrækt í landinu öllu í fastari skorður og aðstæður á útflutningsmörkuðum fóru að vænkast. Má segja að vínin frá Rioja hafi stöðugt verið að batna síðan og virðist ekkert lát á sókn þeirra. Gífurlega mikið hefur verið fjárfest í héraðinu á síðustu áratugum. Gömul víngerðarhús hafa verið endurreist og ný sprottið upp. Nýrri tækni er beitt, jafnt á vínekrum sem við víngerðina.
Það sem einkennir stíl Rioja-vínanna fyrst og fremst er geymslan á víninu. Geymslutíminn ræður því einnig hvernig vínin eru skilgreind. Ef vínin eru seld ung án þess að hafa verið geymd í eik falla þau undir skilgreininguna Sin Crianza. Næsti flokkur þar fyrir ofan er Crianza en það eru vín sem eru komin á þriðja ár áður en þau eru seld og hafa þar af þroskast í það minnsta ár á eikartunnum. Þá koma Reserva-vínin en þau hafa verið látin þroskast að minnsta kosti í þrjú ár og þar af ekki styttri tími en ár á tunnu. Efsti flokkurinn nefnist Gran Reserva en til að hljóta þá skilgreiningu verður vínið að hafa þroskast að minnsta kosti tvö ár á tunnu og þrjú ár á flösku áður en það er sett á markað.
Þetta segir þó auðvitað ekki alla söguna. Yfirleitt nota framleiðendur jafnframt betri vín í Reserva og Gran Reserva heldur en í Crianza og einnig verður að hafa í huga að DO-reglurnar segja einungis til um lágmarkskröfur. Það er mjög misjafnt eftir framleiðendum og árgöngum hversu lengi vínin eru geymd í raun. Sumir setja vínin á markað um leið og þeir eiga þess kost samkvæmt reglunum en aðrir bíða þar til vínið hefur náð þeim þroska sem þeir telja að eigi að einkenna sín vín. Það er því ekki óalgengt að vandaður framleiðandi selji vín er hefur aldur til að flokkast sem Gran Reserva sem Reserva og einnig er ekki óalgengt að finna Crianza-vín frá góðum framleiðanda sem stæði undir því að vera Reserva. Reglurnar segja ekki heldur til um hvernig tunnur eigi að nota við geymsluna og þar kemur stíll víngerðarhúsanna oft í ljós.
Hin sígildu Rioja-vín byggjast á amerískri eik fremur en franskri en sú ameríska gefur af sér feitara og vanilluríkara bragð. Einnig er misjafnt hvaða stærð af tunnum er notuð og hversu gamlar þær eru. Sumir nota stórar og gamlar tunnur, sem löngu eru hættar að gefa af sér viðarbragð en aðrir nota nýjar barricas sem hafa mikil áhrif á vínið, sem þroskast í þeim.
Annað sem taka verður tillit til er þrúguvalið. Fimm þrúgur setja aðallega mark sitt á vínin frá Rioja: Tempranillo, Garnacha (Grenache), Mazuelo (Carignan), Graciano og Cabernet Sauvignon. Notkun á þeirri síðastnefndu er þó háð undanþágum þótt margir telji að Cabernet-vínviður, gróðursettur á nítjándu öld, sé útbreiddari en menn vilja vera láta. Þá má einnig nota hvítu þrúguna Viura í blöndur. Tempranillo er langalgengasta Rioja-þrúgan og er rúmlega önnur hver rauð þrúga, sem ræktuð er á svæðinu, af þessari tegund. Tempranillo er algeng á flestum helstu vínræktarsvæðum Spánar og má segja að hún sé eins konar þjóðarþrúga Spánverja þótt Garnacha sé ræktuð í meira magni. Vín úr Tempranillo eru dökk, krydduð, áfeng og með fremur lágt sýrumagn. Garnacha veitir mýkt, áfengi og fyllingu, Mazuelo veitir tannín og sýru og vín úr Graciano eru ilmrík, með miklum tannínum og sýru. Við þær aðstæður sem ríkja á Spáni gefur Cabernet Sauvignon af sér mýkri vín en í Bordeaux og með þroskaðri tannínum. Það er síðan víngerðarmanna að meta hvaða stíl þeir vilja. Sumir nota allar þrúgurnar, sumir einungis Tempranillo.
Á síðustu árum hefur Rioja-stíllinn verið að breytast. Gömlu, þungu og eikuðu vínin eru á undanhaldi en bjartari, þykkari og ávaxtameiri vín eru í sókn, vín sem líkari eru þeim „alþjóðlega“ stíl er hefur verið að ryðja sér til rúms. Í flestum tilvikum er þó þessi þróun til góðs, þar sem hún ryður ekki einkennum Rioja í burtu heldur skerpir þau með hreinna bragði auk þess sem einkenni hvers framleiðanda koma betur í ljós. Ólíkt því sem raunin er annars staðar virðist þessi þróun því auka á breiddina í stað þess að fletja allt út í allsherjar meðalmennsku. Aðferðirnar, sem notaðar eru til að ná þessum markmiðum, eru yfirleitt að láta vínsafann liggja lengur með hýðinu ( maceration), styttri tíma á eik og lengri tíma á flösku.
Einnar ekru vín eru einnig farin að skjóta upp kollinum sem og dýr ofurvín á borð við Torre Muga. Þá verður stöðugt algengara að framleiðendur setji á markað vín, sem bundin eru við ákveðin undirsvæði innan Rioja, og þá aðallega Rioja Alta og Alavesa í stað þess að blanda öllu saman í einn pott.
Þótt Rioja sé þekktast fyrir rauðvínin (sem eru jafnframt 75% heildarframleiðslu héraðsins) verða hvítvín þaðan stöðugt athyglisverðari. Lengi vel voru þau yfirleitt flöt og óspennandi en á síðustu árum hafa komið æ fleiri vín, ekki síst úr þrúgunni Viura, sem hafa til að bera jafnt þokka sem ferskleika.