Gruaud-Larose smökkun í Þingholti

Það var þéttsetið í Þingholti á Masterclass-smökkun á vínum frá Chateau Gruaud-Larose í Bordeaux. Löngu var uppselt á smökkunina en hana leiddi David Launay framkvæmdastjóri vínhússins.

 Það eru líka margir sem þekkja þetta frábæra vínhús enda var það fáanlegt hér um nokkurt skeið meðal annars þegar það var í eigu Cordier sem sá þá um dreifingu um allan heim.

 St. Julien er ein minnsta appelation Bordeaux ásamt Pomerol og segja má að vínin þaðan séu eins konar millistig hinna fínlegu Margaux-vína sem er næsta þorp suður af St. Julien og öflugu risanna frá Pauillac sem liggur að þorpinu í norðri. Þessi blanda af fágun og krafti hefur heillað marga og ekki spillir fyrir að í St. Julien eru flest 2em Grand Cru vín Médoc en Gruaud er í hópi þeirra. 

Vínekrur vínhúsanna eða chateau-anna í  St. Julien þekja stór landflæmi en sem dæmi má nefna að ekrur Gruaud-Larose telja alls 82 hektara sem samsvarar um 10% af heildarstærð svæðisins.

 Ekrurnar hafa verið í þessari stærð frá árinu 1781 og líkt og flest Chateau í St. Julien á Gruaud-Larose ekki neina möguleika á að stækka við sig. Þetta er raunar eina vínhúsið sem hefur ekki getað stækkað við sig neitt frá því að Médoc-húsin voru flokkuð árið 1855.

 Í skjaldarmerki Gruaud sem sjá má á flöskumiðanum stendur Le vin de roi – Le roi de vin eða vín konunganna – konungur vínanna. Þetta má rekja til að öldum saman var þetta vín borið fram í hirðum Evrópu m.a. hjá Rússlandskeisara og Bretakonungs. Elísabet Bretadrottning mun raunar bera fram Gruaud í öllum opinberum veislum sínum.

Vínin sem David Launay bauð Íslendingum upp á í smökkuninni voru ekki af verri endanum. Í byrjun sýndi hann tvo árganga af Larose de Gruaud, 2004 og 2001, eitt af undirvínum hússins sem framleitt er í litlu magni.

 Fyrsta Chateau-vínið sem við smökkuðum var 2002. All sérstakur árgangur fyrir þá sakir að sumarið var vætusamt út ágúst og lengi vel leit út fyrir að uppskeran færi í vaskinn. Í byrjun september fór sólin hins vegar að skína og og það var heitt og þurrt í margar vikur. Uppskeran hjá Gruaud hefur aldrei verið eins seint á ferðinni en það var í þriðju viku október sem Cabernet-þrúgurnar voru loks tíndar, þær voru þá orðnar að dísætum rúsínum. Vínið ber þess merki, mjúkt og aðgengilegt en ekki vín sem mun lifa lengi.

 2001 hins vegar klassískur og flottur árgangur þar sem Cabernet-inn er ekki eins þroskaður, sýrumeiri, tannískari og því langlífari en 2002.

1995 kraftmikið og glæsilegt vín með yndislega þroskuðum Cabernet sem á mikið eftir og 1989 fágað með töluverðum þroska og farið að sýna appelsínubörk í nefi.

Loks var smakkað 1998 úr double magnum sem var enn nokkuð lokað og sýndi ekki mikið af sér. Í kvöldverði síðar um kvöldið var þetta vín borið fram úr 75 cl flösku og þá blómstraði hins vegar þessi sami árgangur. 

Deila.