Vín vikunnar

Ítalía er fyrirferðarmikil í hópi vínanna sem tekin hafa verið fyrir í þessari viku. Með því að smella á nafn vínanna er hægt að lesa nánar um þau. Ég mæli sérstaklega með Isole e Olena Chianti Classico 2005 sem er dásamlegt rauðvín frá Toskana úr smiðju Paolo de Marchi. Frá Veneto á Norður-Ítalíu koma hins vegar tvö vína vikunnar nánar tiltekið frá framleiðandanum Bertani. Ég hreifst mjög af hvítvíninu Le Lave 2006 en nafn þess er dregið af því að vínviðurinn er ræktaður í jarðveg sem eitt sinn var hraun (lave). Rauðvínið Villa Novarei Ripasso 2006 er ekki síður mjög frambærilegt vín framleitt með hinni svokölluðu Ripasso-aðferði. Frá Argentínu kom vínið Trivento Tribú Pinot Noir 2008 sem ég tók fram að væri mjög heppilegt saumaklúbbavín og loks bættist í sarpinn mjög gott matarvín frá Suður-Frakklandi, Louis Bernard Cotes du Rhone-Villages 2007 sem smellur vel að grilluðu lambakjöti krydduðu með rósmarín.

Deila.