Vín vikunnar

Í vínum vikunnar að þessu sinni er að finna þrjú ítölsk hvítvín og tvö áströlsk rauðvín. Tvö ítölsku vínanna koma frá Suður-ítalíu. Pasqua Chardonnay 2008 er létt og ódýrt hvítvín frá Puglia og Santa Cristina Pinot Grigio 2008 er bjart og sólríkt hvítvín frá Sikiley. Bæði eiga þau það sameiginlegt að koma úr smiðju þekktra vínhúsa af öðrum svæðum Ítalíu (Pasqua frá Veneto og Antinori frá Toskana) sem eru nú farin að hasla sér völl í suðurhluta Ítalíu til að nýta sér hinar ákjósanlegu aðstæður þar til framleiðslu á ódýrum og góðum vínum.

Þriðja ítalska hvítvínið er hins vegar frá vínhúsi í Veneto sem er á heimavelli með þetta vín sitt, Bertani Soave 2007.

Þá hafa tvö rauðvín úr smiðju Peter Lehmanns bæst við í þessari viku en hann hefur lengi verið í miklu uppáhaldi, enda um eitt vandaðasta vínhús Ástralíu að ræða. Peter Lehmann Barossa Shiraz 2005 er hið klassíska Shiraz Lehmann frá fínum árgangi en Peter Lehmann Seven Surveys 2007 er vín þar sem Shiraz blandast tveimur öðrum suður-frönskum þrúgum, Mourvédre og Grenache, með athyglisverðum árangri.

Með því að smella á nafn vínsins er hægt að lesa nánar um það en alla víndóma má síðan sjá með því að smella hér.

Deila.