Vínkreppa í Ástralíu

Ástralski víniðnaðurinn hefur á síðustu misserum verið að sigla inn í djúpstæða kreppu. Áföllinn sem dunið hafa á áströlskum vínframleiðendum eru margþætt, sum af náttúrunnar völdum en einnig hefur ímynd ástralskra vína hægt og sígandi verið að hníga þrátt fyrir að aldrei hafi jafnmikið af vönduðum vínum verið framleidd í Ástralíu.

Stærsti vandi ástralskrar víngerðar undanfarin ár og áratugi hefur verið aðgangur að vatni. Ástralía er þurrasta heimsálfan og mörg vínræktarsvæðanna myndu breytast úr grænum vinjum í eyðimörk ef ekki væru til staðar vatnsból og áveitukerfi. Vegna mikilla þurrka undanfarin ár og sívaxandi eftirspurn eftir vatni (ekki bara til áveitu) hafa margir velt því fyrir sér hvort að áströlsk vínframleiðsla eigi sér framtíð nema hún rifi seglin að einhverju leyti.

Það er töluverð kaldhæðni í því að þegar þurrkunum fór að linna og uppskera ársins 2009 var sú besta í mörg ár (uppskerutíminn er fyrstu mánuði ársins á suðurhvelinu) gaf það lítið tilefni til bjartsýni.

Síðastliðið ár hafa áhyggjur Ástrala nefnilega ekki síður beinst að öðru. Á öllum helstu útflutningmörkuðum þeirra hafa áströlsk vín verið að missa markaðshlutdeild, í mörgum tilvikum verulega. Þar sem Ástralir flytja að meðaltali út 2,5 milljónir flaskna á dag er þetta mikið áhyggjuefni fyrir þjóðina. Í fyrra dróst útflutningsverðmæti víns saman um 18%.

En hvað er það sem hefur gerst? Fyrir rúmum áratug voru áströlsku vínin uppáhald allra og ekkert lát virtist vera á sigurgöngu þeirra. „Sólskin á flösku“ var einkennisorðið og ávaxtaríkur Chardonnay og Shiraz skolaði samkeppninni víðast hvar í burtu. Tímasetningin var líka heppileg. Suður-Afrísk vín voru á bannlista vegna aðskilnaðarstefnunar, Bretar litu ekki við argentínskum vínum vegna Falklandseyja-stríðsins og Chile-vínin voru víða í ónáð út af Pinochet.

Vandi Ástrala virðist ekki síst vera ímyndarvandi. Áherslan hefur verið of rík á einföld, ódýr og sérkennalaus vín og margir neytendur eru farnir að setja samansemmerki á milli Ástralíu og verksmiðjuframleiðslu. Ef ímyndin er slík er hættan á tískusveiflum hins vegar gífurleg og nú virðist sveiflan vera Áströlum í óhag.

Gífurleg umræða hefur verið um þetta í Ástralíu síðustu mánuði og virðist niðurstaða flestra verið sú að Ástralir hafi gleymt mikilvægi þess að koma á framfæri fjölbreytni ástralskra víngerðarsvæða og hversu miklar framfarir hafi átt sér stað undanfarin ár. Það er nefnilega langt frá því að hægt sé að setja áströlsk vín í eitt mót. Mörg minni undirsvæði eru með bestu vínræktarsvæðum í heimi og margbreytileiki vínanna sláandi. Þá mynd sjá hins vegar fæstir. Það verði að breikka og breyta ímyndinni eigi Ástralir ekki að festa í gildu lágvöruverðssamkeppni við Chile, Argentínu og Suður-Afríku.

Það verði að draga betur fram einstök svæði á borð Clare, McLaren Vale, Coonawarra og Tasmaníu.

Ástralir verða að breyta sínum áherslu. Vínin eigi ekki að vera fyrst og fremst „skemmtileg“ heldur „góð“ eða „from fun to fine“. Þetta gæti hins vegar orðið erfiður róður þegar búið er að byggja upp „ódýra“ ímynd áratugum saman.

 

Deila.