Vín vikunnar

Vínin sem fjallað hefur verið um síðustu vikuna koma að venju víða að, í þetta skipti frá Frakklandi, Bandaríkjunum, Spáni og Ástralíu.

Við skulum byrja á Frökkunum sem eru fulltrúa tveggja af þekktustu rauðvínssvæðum landsins, Bordeaux og Beaujolais. Frá hinu fyrrnefnda kemur Chateau Lamothe-Vincent 2007 sem stendur enn undir nafni sem góður og vandaður kreppu Bordeaux. Frá síðarnefnda héraðinu kemur vín frá líklega þekktasta framleiðanda þess, George Duboeuf Beaujolais 2007, en það hafa eflaust margir saknað þess að geta ekki nálgast vín frá Beaujolais í hillum vínbúðanna.

Bandaríkin eru með fulltrúa frá Washington-ríki í norðvesturhluta landsins. Washington er forvitnilegt víngerðarsvæði sem fellur oft í skuggann af stóra bróður sínum í suðrinu, Kaliforníu. Columbia Crest Grand Estates Merlot 2005 er virkilega góður Merlot á ágætu verði.

Spánverjinn er frá Rioja, frá einum helstu góðkunningja Íslendinga þar Bodegas Montecillo, sem hafa notið ómældra vinsælda hér á landi frá því þau komu fyrst á markað fyrir um einum og hálfum áratug. Montecillo Reserva 2005 ætti ekki að valda unnendum vonbrigðum, ágætasta nautakjötsvín.

Ástralinn loks fantavín á fantagóðu verði. Grant Burge Filsell Barossa Shiraz 2003.

Þið smellið á nafn vínanna til að lesa nánar um þau. Alla víndóma er svo hægt að nálgast með því að smella hér.

Myndskreytingin þessa vikuna er frá búgarði Columbia Crest í Washington-ríki.

Deila.