Crème Brûlée

Þessi eftirréttur hefur notið mikilla vinsælda á matseðlum íslenskra veitingahúsa síðustu árin. Hann er raunar víða vinsæll, það er varla til sá litli franski veitingastaður sem ekki er með Crème Brûlée á matseðlinum eða sá spænski sem ekki býður gestum sínum upp á Crema Catalana, sem er nánast nákvæmlega sami rétturinn.

Crème þýðir rjómi á frönsku en er einnig notað sem hugtak yfir sæta, rjómakennda eftirrétti eins og þennan sem jafnframt er Brûlée eða brenndur.

Fyrir sex skammta þarf:

5 dl rjómi

6 eggjarauður

100 g sykur

1 vanillustöng

Hitið ofnin í 150 gráður.

Hellið rjómanum í pott. Skerið vanillustöngina í tvennt, hreinsið fræin úr henni og bætið út í rjómann. Saxið stöngina niður í minni bita og bætið sömuleiðis út. Hitið rjómann að suðu, lækkið þá hitann og látið malla mjög rólega í um fimm mínútur.

Þeytið eggjarauðurnar saman við sykurinn þangað til þetta orðið að ljósu kremi.

Þegar rjóminn er búinn að malla í fimm mínútur hækkið þið hitann aftur upp að suðu og hellið honum síðan saman við eggjablönduna. Pískið vel saman í smá stund. Síið vanillustengurnar frá og hellið í lítil mót, fyllið mótin ekki alveg.

Setjið mótin í fat og hellið í það heitu vatni þannig að það nú upp í að minnsta kosti hálft mótið. Setjið í ofn og bakið í 40-50 mínútur.

Takið út, leyfið að kólna og geymið í ísskáp.

Áður en rétturinn er borinn fram stráið þið sykri yfir mótin og bræðip hann, annað hvort með litlu eldhúslogsuðutæki eða með því að setja undir grillið í ofninum. Ekki brenna sykurinn of mikið. Hann á að bráðna til að mynda harða sykurskán en ekki meir.

Rétturinn er borinn fram kaldur.

Deila.